144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti á sínum tíma sæti í fjárlaganefnd. Þá þegar voru umræður um að það þyrfti að gera gögnin sem liggja undir vinnu fjárlaganefndar betur úr garði til að þau væru skiljanlegri. Það gildir ekki síst um lokafjárlög sem oft hafa verið gagnrýnd fyrir að mjög erfitt er að skilja hlutina sem að baki liggja.

Nú ætla ég ekki að gera neinar sérstakar kröfur til núverandi forustu fjárlaganefndar um nútímaleg vinnubrögð en eigi að síður velti ég því fyrir mér þegar ég hlusta hér á framsögu, fer yfir nefndarálitið, hvort meiri hluti fjárlaganefndar lítur á sig sem einhvers konar stimpilpúða fyrir fjármálaráðuneytið.

Ef við tökum til dæmis það sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir drap á, yfirfærslu heimilda, kemur í ljós í nefndarálitinu að það er stefna sem kemur frá fjármálaráðuneytinu um það með hvaða hætti á að færa vannýttar heimildir á milli ára. Það kemur fram, að vísu ekki með berum orðum en má lesa á milli línanna, að fjárlaganefnd virðist ekkert vera sérlega ánægð með þetta og hún setur á laggir sérstakan vinnuhóp sem fer í tiltekin dæmi og óskar eftir skýringum hjá fjármálaráðuneytinu. Svo kemur einhver niðurstaða sem er bersýnilega undirorpin gagnrýni af hálfu nefndarinnar en nefndin leggur ekki til neinar breytingartillögur. Telur hv. þingmaður ekki að kominn sé tími til að nefndin taki sér ákveðið frumkvæði og fari að fylgja eigin stefnu í stað þess að láta rétta sér línuna hráa úr fjármálaráðuneytinu?

Í öðru lagi: Telur hún ekki að kominn sé tími til að fjárlaganefnd taki sér tak og reyni að temja sér nútímalegri vinnubrögð varðandi framsetningu? Ég nefni sem dæmi þær fjárlagaheimildir sem fluttar eru milli ára, eins og hv. þingmaður rakti með dæmum, það var ekkert á bak við það heldur einungis samtalan. Þetta er mjög ógreinilegt. Telur hv. þingmaður að það sé borin von að núverandi meiri hluti fjárlaganefndar hunskist til að koma sér inn í nútímann?