144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir mjög efnismikla og góða ræðu. Það er líka mjög ánægjulegt að núna sjáum við svart á hvítu að fjárlagaárið 2013 skilaði afgangi upp á 9 milljarða ef litið er til undirliggjandi rekstrar. Það þýðir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tókst að stoppa upp í 120 milljarða kr. gat. Það er ekkert smáræði á fjórum árum, á sama tíma og allt samfélagið nötraði vegna bankahruns krónunnar, fyrirtæki fóru unnvörpum á hausinn og heimilin voru föst í skuldafeni. Þetta var mjög flókinn og erfiður tími en okkur tókst að rétta ríkissjóð af og hækka þar með skuldasöfnun, sem auðvitað kostar okkur mjög mikið í vaxtagreiðslum árlega. Eins og við sögðum alltaf: Við ætlum að breyta vöxtum í velferð. Niðurskurðurinn stefndi að því.

Þá velti ég fyrir mér eftir þennan frábæra árangur hvort það sé ekki áhyggjuefni að líta til ríkisfjármálaáætlunar sem nú liggur fyrir þinginu. Þar virðast vera mjög vanáætluð þau útgjöld sem nauðsynleg eru til að við getum rekið hér samfélag sem telst til nútímavelferðarsamfélags. Ég velti fyrir mér, er það svo að árangrinum sem við sjáum í þessum lokafjárlögum sé ógnað með ósjálfbærri tekjulækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar?