144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[12:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega ekki alltaf gaman að vera í því hlutverki að þurfa að skafa upp, moka flórinn, eins og við þurftum að gera eftir áratuga samstarf þeirra flokka sem nú ráða ríkjum. Ég tek undir að það er margt í hagkerfinu og við í stjórnarandstöðunni erum ekki þau einu sem hvetja til þess að menn geri sér ekki of miklar væntingar og annað slíkt og það er mikilvægt þessa dagana þegar verið er að fjalla um afnám eða losun hafta, því að það er ekki verið að afnema höft, það er verið að búa til ferli til losunar. Og þá sér ráðherra fjármála tækifæri til að segja: Nú ætlum við að fara að lækka skatta. Það gerir ekkert annað en að segja við alla sem stjórna fjármálum: Bíddu nú við, þá þurfum við að skoða hvort verðbólgan hækkar ekki og þurfum við ekki að hækka vexti o.s.frv.?

Ég held því miður að sú skattstefna sé þannig að hún setji okkur lóðbeint aftur á þann stað sem við vorum, ef fram heldur sem horfir. Það er ekki bölsýni eða svartsýni. Þetta hefur sýnt sig. Það er staðreynd. En menn ætla samt að reyna þetta aftur þrátt fyrir að hafa beðið þetta gríðarlega skipbrot.

Ég tek undir þetta með hv. þingmanni og hef sagt frá því þegar ég kom fyrst inn á þing og fór að fjalla um fjárlögin. Það kom mér á óvart hvað það voru alltaf fáir í þingsal og ég veit að það eru ekki endilega mjög margir að fylgjast með, af því að þetta er eitthvað sem fólki, mörgu hverju, finnst ekki skemmtilegt. Kannski er það einmitt okkar hlutverk að draga þau upp úr tæknilegum umræðum og færa yfir í þetta mannlega, þetta sammannlega, eins og hvað þessi tala þýðir sem er þarna á blaði, hún þýðir að það verða ekki veitt sjúkrahúslyf eða eitthvað slíkt. Ég held að við þurfum að taka okkar til og breyta umræðunni.