144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[13:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Mér er þungt í skapi. Þessi umræða hófst með afskaplega ósmekklegum ummælum hv. formanns fjárlaganefndar, sem talaði um að fyrri ríkisstjórn hefði verið ríkisstjórn kröfuhafa. Hún var að segja að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefði í eftirleik hrunsins unnið í þágu erlendra hagsmuna og þar með gegn þjóðarhagsmunum. Þetta eru mjög alvarleg brigsl. Þetta virðist vera stef sem framsóknarmenn ætla að halda fram og reyna að halda því svo oft fram að það verði sannleikur að lokum. Hér um daginn brigslaði hv. þm. Karl Garðarsson formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, um óheilindi við þjóð sína af svipuðum toga. Við gerðum mörg athugasemdir við það og að lokum baðst hann afsökunar og sagði að að sjálfsögðu hefði hann gengið of langt.

Ég ætla í upphafi ræðu minnar að víkja nokkrum orðum að fyrrverandi þingmanni, ráðherra og forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur. Nú stendur yfir sýning í Alþingishúsinu í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna. Þar má sjá að Jóhanna var tíunda konan sem var kjörin á Alþingi Íslendinga árið 1978. Fyrir þá sem áhuga hafa á störfum hennar er hægt að sjá á vef þingsins öll þau fjölmörgu mál sem hún lagði fram og barðist fyrir af mikilli einurð. Það var haft að glensi að vinnusemi Jóhönnu væri svo mikil að það þyrfti að minnsta kosti tvo starfsmenn í Stjórnarráðinu til þess að svara fyrirspurnum frá henni og skrifa skýrslur samkvæmt hennar beiðni.

Nú er ég kannski ekki best til þess að fara yfir feril hennar, sem er náttúrlega langur. Hann var 35 ár á Alþingi. Hún beitti sér fyrir og kom í gegn gríðarlegum umbótum í þágu barna, í þágu fatlaðs fólks og í þágu aldraðra. Hún beitti sér fyrir lýðræðisumbótum. Þegar allt hrundi hér var Jóhanna nánast sjálfkjörin til þess að taka við forustu í ríkisstjórn. Fólk vissi, óháð því hvort það var sammála hennar pólitísku skoðunum eða ekki, að Jóhanna Sigurðardóttir var einörð í málsvörn sinni fyrir almannahagsmuni í íslensku samfélagi. Hún hafði barist fyrir þeim sem oft eiga sér ekki rödd þannig að nú eru ýmsir hópar sem áður stóðu höllum fæti komnir með miklu sterkari rödd í íslensku samfélagi og njóta mannréttinda á við aðra. Hún hafði barist gegn hvers konar spillingu og fólk vissi að Jóhanna Sigurðardóttir væri til þess fallin að leiða ríkisstjórn Íslands á þessum erfiðu tímum með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Það er því afskaplega alvarlegt og ósmekklegt að koma hingað og gefa í skyn að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi gert eitthvað annað en að vinna að hagsmunum almennings á Íslandi. Ég fordæmi slíkar aðdróttanir í garð þeirrar merku konu. (Gripið fram í.)

Við erum nú að ræða lokafjárlög og fáum hér vitnisburðinn um hversu vel tókst til hjá ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það er ágætlega farið yfir það í Markaðspunktum Arion banka hvernig náðist að koma á hallalausum ríkissjóði, ef frá eru taldir óreglulegir liðir sem snerta ekki beint undirliggjandi rekstur ríkissjóðs. Að sjálfsögðu þarf að taka tillit til þeirra því að óreglulega liði þarf að fjármagna úr ríkiskassanum eins og aðra. En mikilvægt er að uppbygging tekjuöflunarkerfis og útgjaldakerfis ríkissjóðs sé með þeim hætti að reksturinn sé sjálfbær, að tekjuskattskerfið, skattkerfið í landinu, sé þannig upp byggt að það afli í eðlilegu árferði þeirra tekna sem nauðsynlegar eru til þess að geta veitt þá þjónustu og þær tekjutilfærslur og farið í þær fjárfestingar sem við viljum að séu hér í landinu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur valdi leið sem mikið hefur verið litið til víða um lönd og hefur fengið toppeinkunn, sem var að leita leiða til þess að auka tekjur ríkissjóðs. Það var gert með sérstökum auðlegðarskatti, sem var eignarskattur á mjög eignamikla einstaklinga í samfélaginu, og með veiðigjöldum og síðan með þrepaskiptu skattkerfi, sem var sjálfsagt mál og tíðkast í öllum siðmenntuðum ríkjum þar sem þeir sem hærri tekjur hafa bera hlutfallslega örlítið þyngri byrðar en þeir sem minnstar tekjur hafa. Það er sanngjarnt kerfi og til þess fallið að skapa samfélag jöfnuðar, sem við náðum náttúrlega ótrúlegum árangri í, af því að jöfnuður leiðir af sér betra samfélag í þeim skilningi að flestir hafa tækifæri til þess að þroska þá hæfileika sem þeir hafa til að bera, heilsufar er betra, félagsleg samheldni er meiri, færri glæpir og það sem skiptir ekki síst máli er að jöfnuður leiðir af sér öflugra atvinnulíf því að fólk er menntaðra og tilbúnara til þess að taka áhættu því að gott öryggisnet grípur það ef illa fer og þannig njóta fyrirtæki landsins góðs af og eru í betri færum til þess að vaxa og auka samkeppnishæfni sína á innlendum sem og erlendum markaði.

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra á árunum 2007–2009 tók hún yfir málaflokk almannatrygginga enda er það málaflokkur sem stóð hjarta hennar mjög nærri. Henni tókst það sem fyrri ríkisstjórn hafði ekki tekist, að afnema makatengingar í almannatryggingakerfinu sem skipti sköpum fyrir þá lífeyrisþega sem sættu skerðingum af því að makar þeirra höfðu tekjur yfir ákveðnum mörkum þannig að lífeyrisþegar voru í mörgum tilfellum, sérstaklega örorkulífeyrisþegar, í þeirri stöðu að vera ekki fjárhagslega sjálfstæðir. Hún innleiddi einnig sérstaka lágmarksframfærslutryggingu sem hækkaði lágmarksbætur almannatrygginga um allt að 30 þús. kr. Þær breytingar sem gerðar höfðu verið skiptu auðvitað sköpum þegar kom síðan kaldranalega í hennar hlut að skera niður í þessu kerfi. Makatengingar voru ekki innfærðar aftur og lágmarksframfærsluuppbótin hélt sér og tryggt var að hún hækkaði þó að aðrar greiðslur stæðu í stað eða væru skertar með einhverju móti.

Þetta tímabil, 2009–2013, reyndi mjög á þolrif stjórnarliða og leitað var leiða til þess að draga úr niðurskurði eins og hægt var og draga úr þeim sársauka sem allt þetta þýddi fyrir landsmenn sem lögðu mikið af mörkum til þess að taka þátt í því að koma samfélaginu aftur á réttan kjöl. Við töluðum um það að við vildum breyta vöxtum í velferð því að ef við næðum niður hallanum á ríkissjóði mundi ríkissjóður hætta að safna skuldum, en skuldirnar voru það umfangsmiklar eftir fjármálahrunið að þær voru næststærsti útgjaldaliður ríkisins á eftir heilbrigðismálum, á níunda tug milljarða. Það segir sig sjálft að til lengdar gengur slíkt ekki og það varð að bregðast við.

Það má líka segja að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi verið ríkisstjórn hinna stóru áætlana. Þar má nefna til dæmis fjárfestingaráætlunina sem var fjármögnuð m.a. með veiðigjöldum sem ný ríkisstjórn lækkaði síðan þannig að hún svipti fjárfestingaráætlunina tekjugrundvelli. Það var líka byrjað að bæta inn í kerfin. Það var búið að hækka barnabætur og átti að fara í enn frekari hækkanir. Það var búið að lengja fæðingarorlofið og hækka það umtalsvert, það var ekki komið til lenginganna en hækkun þaksins um 50 þús. kr. hafði þegar átt sér stað. Niðurskurði í heilbrigðiskerfinu var lokið og það var byrjað að bæta í fjármuni til tækjakaupa og viðhalds og í reksturinn.

Það voru mikil vonbrigði þegar ný ríkisstjórn kom til valda með gömlu möntruna um skattalækkanir sem móður allra umbóta og hélt áfram að skera niður ríkisútgjöld þó að það hefði líklega ekki verið hægt að skera meira niður í lok valdatíðar Jóhönnu Sigurðardóttur, eins og hv. formaður fjárlaganefndar komst að orði. Núverandi ríkisstjórn hefur fundið ýmis tækifæri til þess að skera meira niður og þó að stjórnarmeirihlutinn tali um aukin útgjöld til heilbrigðiskerfisins þá eru þau ekki næg hlutfallslega til þess að mæta þörfum kerfisins.

Það eru sérstakir málaflokkar sem ég vil gefa aðeins gaum. Það eru almannatryggingar, barnabætur, framhaldsskólarnir, heilbrigðiskerfið og löggæslan. Almannatryggingakerfið og barnabótakerfið eru náttúrlega bara tekjutilfærslukerfi. Þar notum við skatttekjur til þess að greiða til hópa sem þurfa á samtryggingu samfélagsins að halda og eiga rétt til samkvæmt lögum. Þar eru örorkulífeyrisþegar, ellilífeyrisþegar og barnafjölskyldur í fyrirrúmi, enda þarf ekki að hafa djúpt innsæi í mannlegt samfélag til að átta sig á að þetta eru eðlilega þeir hópar sem helst þurfa á samtryggingarkerfinu að halda. Við njótum þess öll á einhverjum tímapunkti að búa við þessi kerfi, stundum erum við nettóþiggjendur og stundum erum við nettógreiðendur. Þannig er það í eðlilegu samfélagi.

Varðandi framhaldsskólana, heilbrigðiskerfið og löggæsluna þá eru það auðvitað veigamiklir þættir í góðu samfélagi. Menntun fyrir alla óháð efnahag, heilbrigðisþjónusta fyrir alla óháð efnahag og ég vil bæta við búsetu varðandi báða þessa þætti og svo löggæsla sem miðar að því að skapa öryggi í samfélaginu, gera lögregluna sýnilega, en auðvitað viljum við búa í þannig samfélagi að lögreglan þurfi að vera með fæst inngrip. Því náum við best með jöfnuði því að hann dregur úr glæpum.

Varðandi heilbrigðiskerfið þá er það gott dæmi. Þar logar allt stafna á milli núna. Læknar fóru í fyrsta skipti í sögunni í verkfall, hjúkrunarfræðingar fóru í verkfall og margar stéttir heilbrigðiskerfisins hjá BHM. Þegar heilbrigðiskerfið verður fyrir niðurskurði, sem það hafði verið í frá aldamótum, þá þýðir það ósköp einfaldlega að fjárfestingar og innkaup dragast saman og laun dragast saman en verkefnunum fækkar ekki. Það eru kannski ákveðin verkefni sem er hætt að sinna, sem er mjög alvarlegt, en fólk heldur áfram að veikjast, fólk heldur áfram að þurfa að fá líknandi meðferð, við þurfum að halda opnum góðum heilsugæslustöðvum og svo erum við svo heppin að Íslendingar halda áfram að fæðast — við stöndum mjög vel að vígi þegar að því kemur. Til þess að allir fái þjónustu sem nauðsynleg er þurfum við gott heilbrigðiskerfi og það er borið uppi af starfsfólki og launakostnaðurinn vegna þess starfsfólks er meginuppistaðan í útgjöldum til heilbrigðiskerfisins.

Það sem íslenskir heilbrigðisstarfsmenn hafa farið í gegnum er fækkun starfsfólks og lakari kjör. Nú er svo komið að við verðum að bæta í reksturinn. Þó að hér séu stórkarlalegar yfirlýsingar um að aldrei hafi verið sett inn jafn mikið þá er byrðin hlutfallslega að þyngjast á heilbrigðiskerfinu og það þarf að mæta því með auknum útgjöldum. Það hefur ekki verið gert. BHM hefur ekki enn þá náð samningum en nú á að reyna að knýja hjúkrunarfræðinga til samninga sem þýða í raun að ekki er verið að eyða kynbundnum launamun sem þessi stétt hefur myndarlega risið gegn og telur nóg vera komið, nú verði ekki lengur hægt að reiða sig á gæsku kvenna til þess að gefa eða selja vinnu sína miklu ódýrar en karlar selja sína vinnu, þ.e. hinar hefðbundnu karlastéttir.

Það er auðvitað þannig að þó að haldið hefði verið áfram með stefnu fyrri ríkisstjórnar þá væri ástandið hér ekki fullkomið. Það mun taka lengri tíma. En það hvernig hlutirnir eru gerðir skiptir líka miklu máli. Stundum verður ekki komist hjá niðurskurði og stundum er ekki hægt að bæta í nema takmarkað út af aðstæðum, en hvaða skilaboð eru send inn í kerfið? Eru þau skilaboð send að viðkomandi stéttir séu heimtufrekar og óbilgjarnar eða eru þau skilaboð send að þessar stéttir séu mikilvægar og stjórnvöld vilji koma til móts við þær en viðfangsefnið sé flókið og krefjist mikillar samvinnu? Því miður valdi núverandi ríkisstjórn fyrri leiðina og var til dæmis tilbúin til þess að setja lög á þessar stéttir af því að það væri svo mikið neyðarástand í heilbrigðiskerfinu út af verkföllum þeirra, en skilur ekki að mikilvægi þessara stétta ætti auðvitað að endurspeglast í kjörum þeirra.

Lokafjárlögin fyrir 2013 óttast ég að séu ekki að gefa tóninn fyrir stjórnarár þessarar ríkisstjórnar. Það verður hlutverk okkar í minni hlutanum hér eftir sem hingað til að berjast fyrir auknum útgjöldum til samneyslunnar og tekjutilfærslna af hálfu ríkissjóðs og tryggja að núverandi stjórnarmeirihluti skerði ekki tekjustofna ríkisins sem greiddir eru af handhöfum auðlindanna og eignamesta og tekjuhæsta fólkinu í landinu.

Nú getur hv. formaður fjárlaganefndar talað hér um góða stefnu ríkisstjórnarinnar. Undirskriftalistar með á sjötta tug þúsunda undirskrifta, síendurtekin mótmæli á Austurvelli vegna Evrópuaðildarumsóknar og vegna verkfalla og niðurskurðar, sem og verkföll stórra, mikilvægra stétta bera vitni um að það er ekki almenn samstaða meðal íslensku þjóðarinnar um þá stefnu sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur markað, stefnu sem við þurfum vonandi ekki að þola nema í hæsta lagi í tvö ár í viðbót.