144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[13:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Ég tel nefnilega ágætt að við förum hér yfir það sem vel hefur verið gert. Það er afar mikilvægt, eins og ég kom inn á í máli mínu áðan, að halda til haga hversu erfiðir tímarnir voru, sem birtist meðal annars í stöðu heilbrigðismálanna í dag. Það hefur líka töluvert borið á því finnst mér í orðræðu forsvarsmanna fjárlaganefndar að það hafi ekki verið markmið fyrri ríkisstjórnar að ná jöfnuði í ríkisfjármálunum, að það hafi ekki verið markmiðið að reyna að greiða niður skuldir, eins og það sé einhver nýjung sem núverandi ríkisstjórn ber á borð fyrir þjóðina. Þess vegna er mikilvægt að við höldum því til haga að auðvitað var það og hefur alltaf verið markmið hverrar ríkisstjórnar. Eins og komið hefur fram var markmiðið í rauninni að breyta vöxtum í velferð, eins og hv. þingmaður hefur sjálf tekið sér í munn.

Okkur er brugðið þegar talað er um að það hafi aldrei verið lagðir jafn miklir fjármunir í heilbrigðismálin og nú, eins og þingmaðurinn nefndi. Staðan við hrun var svo ógnvænleg að Landspítalinn átti ekki fyrir lyfjum. Hann átti ekki fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Þannig var honum skilað inn í hrunið eftir hið svokallaða góðæri. Það er eins og núverandi stjórnarflokkar vilji pínulítið gleyma því að núllpunkturinn var ekki 2008, að frá þeim tíma gætu þeir byrjað á því að miða við einhverjar fjárveitingar. Þegar teknar eru saman fjárveitingar til heilbrigðismála, sem fólk stærir sig af, þá er það nú svo að ef við miðum við verga landsframleiðslu þá munar nánast engu. Það er auðvitað ekki hægt. (Gripið fram í.) — Ríkisfjármálaáætlun og fjárlög sýna fram á þetta. Ég get sýnt (Forseti hringir.) formanni fjárlaganefndar, sem hér kallar fram í að þetta sé ekki satt, línurit því til staðfestingar.