144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[13:57]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega ekki nóg að stæra sig af því að hagur í ríkisfjármálunum sé að verða betri, forgangurinn sé að greiða niður skuldir, ef við ýtum öllu öðru til framtíðar. Það er eiginlega málið. Við verðum að gera þetta jöfnum höndum, þ.e. nýta rýmið sem þingmenn halda fram að skapist með vaxtalækkunum, nokkuð sem mér finnst fullbratt að telja að verði. Það þarf að nýta það í svo margt annað, m.a. í þessa innviðauppbyggingu, og þess vegna er mikilvægt að vel verði raðað.

Ég tók það fram í ræðu minni áðan að mér fyndist mikilvægt að halda því til haga að það gæti auðvitað hver ríkisstjórn á hverjum tíma tekið til sín það sem hún ætti en það má ekki gleymast að það var þjóðin sem tók fyrst og fremst á með þeirri ríkisstjórn sem þá starfaði til að þetta gengi upp eins og það gerði.

Ég verð að segja, af því að hér kallaði formaður fjárlaganefndar úr sal að það sem ég hélt fram væri ekki rétt, að það er vissulega rétt að heilbrigðisútgjöldin hafa hækkað undanfarin ár en ef þau eru skoðuð sem hlutfall af heildarútgjöldum á fjárlögum eða vergri landsframleiðslu þá eru þau örlítið hærri. Það munar svo litlu að fólk getur ekki leyft sér að taka það sér í munn að það sé svo stórkostlegt sem verið er að gera.

Ég tek undir það og ber auðvitað þann ugg í brjósti að samningar verði felldir, því miður. Fólk er eiginlega að fara þá leið að skrifa bara undir samninga vegna þess að það er nauðbeygt til þess til að lenda ekki fyrir gerðardómi. Þetta eru stéttirnar, eins og hv. þingmaður nefndi, sem börðust hvað harðast með okkur og tóku við börnum og fólki í alls konar ásigkomulagi, sem þurfti að bíða vegna þess að þjónustan var skert. (Forseti hringir.) Þetta fólk stóð með okkur. Nú á þetta fólk að halda áfram þrátt fyrir að þjóðarhagurinn sé svona óskaplega góður að sögn (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar.