144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[13:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mikið rétt, það var nefnilega íslenskur almenningur sem kom þjóðarbúinu úr þeim ógöngum sem það var í. Nú á hinn sami almenningur að borga brúsann svo að gamla helmingaskiptastjórnin sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga geti haldið áfram að framfylgja stefnu sinni, framfylgja stefnu sem felst í því að lækka skatta á þá sem mest eiga og auka fjárfestingu í stóriðju og selja orkuna á spottprís. Þeirri stefnu vorum við búin að breyta. Þó að hér hafi verið umfangsmikil framleiðsla á orku og mikið bæst inn í kerfið í okkar stjórnartíð þá var tryggt að fyrir hana kæmi markaðsverð og ekki væru gerðir einhverjir þrælslundarsamningar um spottprís á raforku. Síðan létum við auðvitað greiða fyrir aðgengi og notkun á fiksveiðiauðlindinni. Það hefur verið lækkað stórlega. Nú á í ofanálag að taka nýja tegund, makrílinn, og kvótasetja. Það átti að kvótasetja hann í sex ára samningum sem þýða í raun og veru eilífðarsamningar því að það hefði þurft tvær ríkisstjórnir í röð til þess að taka sameiginlega ákvörðun um að breyta því fyrirkomulagi.

Þetta er það sem núverandi ríkisstjórn býður íslenskum almenningi, ríkisstjórn sem tekur við eins góðu búi og hægt var að búast við eftir þessi ár en er með fylgistölur sem sýna okkur að þessari hugmyndafræði hefur verið hafnað af íslenskum almenningi. Við viljum ekki pilsfaldakapítalisma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks aftur. Við viljum félagslegt réttlæti og samfélag jöfnuðar.