144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Þetta voru mjög margar góðar ábendingar og spurningar. Hv. þingmaður endaði á mörkuðu tekjunum og spurði mig sérstaklega út í þær. Nú er það svo og ég get sagt það algjörlega frá hjartanu að ég er ekki hlynnt mörkuðum tekjum. Ég tel að það sé heppilegra að fjármunir renni beint í ríkissjóð og síðan sé ákveðið eftir þörfum hverju sinni hvert fjármunirnir renni. Þetta er hin kenningarlega sýn mín á málið.

Nú þekki ég ekki sögu markaðra tekna í gegnum tíðina. Auðvitað hafa oft verið búnar til markaðar tekjur því að það er verið að tryggja tekjustofna fyrir eitthvað, en það sýnir líka vantraust stjórnmálamannanna á getu pólitíska valdsins til þess að dreifa fjármunum þangað sem helst er þörf fyrir þá.

Þá komum við að þessu vandamáli: Viljum við sem stjórnmálamenn auka skilvirknina í tekjuöflun ríkissjóðs og síðan útdeilingu fjármuna? Stundum skila markaðir tekjustofnar í góðu árferði gríðarlegum tekjum, en það er ekki verið að nýta þá í sama mæli og það er kannski skortur á fjármunum annars staðar. Þetta er því óheppilegt fyrirkomulag.

Í aðra röndina stöndum við frammi fyrir þessu: Treystum við okkur til að breyta þessu kerfi alfarið og treystum við hinu pólitíska valdi til að nýta fjármunina þar sem helst er þörf fyrir þá eða er hætta á að þeir útgjaldaliðir sem nú fjármagnast með mörkuðum tekjum að öllu eða miklu leyti fái þá ekki næga fjármuni?

Ég gef því ekki skýrt svar, en í kenningunni er ég ekki hlynnt mörkuðum tekjum.