144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi framsetningu fjárlagafrumvarpsins, fjáraukalagafrumvarpsins og lokafjárlagafrumvarpsins þá hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að henni verði að breyta. Fjárlagafrumvarpið er þannig að maður þarf að vera innvígður til þess að finna yfir höfuð það sem leitað er að. Það er ekki til þess fallið að almenningur geti kynnt sér það og áttað sig almennilega á því hvernig útgjöldum á er háttað. Auðvitað er það hægt að einhverju leyti en það er allt of flókið. Ég held því fram að margir þingmenn hér í salnum þekki bara einstaka hluta þessa frumvarps því að það er óaðgengilegt og erfitt að fylgjast með raunstærðum og slíku í þessum plöggum.

Varðandi markaðar tekjur getur maður oft sagt: Það er sanngirni í því að bensíngjaldið fari í að byggja upp vegi. Á það að endurspeglast fullkomlega? Er ekki útblástur bílanna þannig að við þurfum að nýta gjaldið líka í öðrum tilgangi? Þegar kemur að langveikri manneskju sem hefur í raun og veru ekki greitt skatta til samfélagsins lengi því að viðkomandi hefur ekki getað aflað tekna og greiðir því ekki tekjuskatt, viljum við ekki hún fái sína heilbrigðisþjónustu? Það er ekki alltaf hægt að tengja þarna á milli.

Við höfum lent í ógöngum með markaðar tekjur í heilbrigðiskerfinu. Þjónustugjöld hafa stóraukist og nú greiðir fólk 30 milljarða úr eigin vasa. Það verður alltaf tilhneiging hjá stjórnmálamönnum að ef þarf að skera niður eða draga úr útgjöldunum þá eru þjónustugjöldin aðeins aukin í staðinn. Það verður þessi freistnivandi. Þó að markaðar tekjur geti verið sanngjarnar og gegnsæjar þá geta þær líka verið ákaflega ósanngjarnar og á engan hátt endurspeglað þörfina fyrir fjárveitingar úr ríkissjóði.