144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Alþingi hefur fjárstjórnarvaldið og það á aldrei að láta framkvæmdarvaldið rýra það að neinu leyti. Það er alltaf tilhneiging til þess af hálfu framkvæmdarvaldsins að reyna að ná sem mestum völdum á Alþingi. Mér finnst að framkvæmdarvaldinu takist það fullmikið gagnvart fjárlaganefndinni. Mér finnst til dæmis ekki gott að heyra það hjá hv. þingmanni að nefndin hafi óskað eftir skýringum á því af hverju sá liður stafi sem ég tók sem dæmi upp á 11,8 milljarða. Það var það sem hv. þingmaður sagði og nefndin hefði óskað eftir skýringum hjá ríkisendurskoðanda. Mér finnst að svona stórt mál sé ekki hægt að klára fyrr en þetta liggur fyrir.

Hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir stærði sig af því eins og páfugl með útbreitt stél hvað þetta væri allt orðið gott hjá henni og allt í mikilli sátt. (Gripið fram í.) Mér finnst að svona háar upphæðir þurfi að liggja fyrir. Hvað veldur þessu? Nefndin á að vita þetta.

Í annan stað tek ég eftir því að reglan sem við tókum upp 2008 sem fól það í sér varðandi útgjaldaheimildir að það mætti færa 10% yfir áramót er enn í gildi. 4% var það áður og mig minnir að það sé enn þá 4% varðandi stofnkostnað og tilfærslur. Ég geri mér alveg grein fyrir að það er, eins og hv. þingmaður var að segja, svolítið erfitt að ræða tilfærslurnar sem eru oft bundnar í önnur lög. Ég tek svo eftir því að þegar ég les greinargerðina með lokafjárlögunum að það eru samt undantekningar. Það er greint frá því að sumar stofnanir hafi fengið að fá meira en 10%. Hvar eru þær? Ég finn þær ekki, ábyggilega ekki hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson og örugglega ekki þeir sem utan þings vildu kynna sér þetta.

Stjórnfesta verður að vera. Ef það er regla þá á hún að gilda um alla, ef það eru undantekningar þá á að segja hvaða tilvik það eru.