144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er viss um að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, getur svarað þessu miklu betur en ég. En á sínum tíma var bilið á milli ríkisreiknings og lokafjárlaga oft miklu lengra en í dag, ég held að það séu sjö mánuðir, kemur það ekki fram í nefndarálitinu? (Gripið fram í.) Hér áður fyrr var það snöggtum lengra. Þá taldi ég að þetta stafaði af því að tækni við að safna inn upplýsingum væri áfátt. Í dag ætti það ekki að vera hemill á það en væntanlega er það þannig að menn eru seinir að koma upplýsingum frá stofnunum inn í ráðuneytin þar sem er unnið úr þeim og síðan í gegnum þann vinnsluprósess. Það hlýtur að vera það.

En það er líka mín reynsla af því að breyta verkferlum í ráðuneytum að það er hægt að verulegu leyti en það kostar mikið erfiði í upphafi. En þegar menn eru einu sinni búnir að gera það, þá fer það að ganga mjúklega. Og ekki gleyma því að það sem við hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson erum að tala um sem æskilegt og eðlilegt verkferli, það hefur fyrir löngu verið tekið upp í flestum þingum nágrannalandanna, svo þetta er algerlega hægt.