144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:55]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki heldur að lengja þessa umræðu mikið en langar þó að taka undir orð hv. þingmanns þegar hann talar um að frumvörpin þurfi að vera aðgengilegri. Við höfum rætt þetta í hv. fjárlaganefnd, því að það er ekki bara svo með fjárlagafrumvarpið, fjáraukalagafrumvarpið og frumvarpið um lokafjárlög að erfitt sé að fletta upp í þeim fyrir almenning heldur eigum við oft í fullu fangi með að fara í gegnum þetta í hv. fjárlaganefnd. Við bindum vonir við það að þegar ný lög um opinber fjármál verða samþykkt muni í kjölfarið fylgja betri framsetning og aðgengilegri á þessum gögnum, þó ekki væri nema fyrir það að eitt af grunngildunum undir frumvarpið um opinber fjármál er gegnsæi. Þá skiptir líka máli að frumvörpin séu sett þannig fram að við áttum okkur á því hvað stendur þar, bæði við sem þurfum að vinna með gögnin og eins almenningur, vegna þess að þau plögg sem við erum hér að ræða skipta svo miklu máli fyrir líf allra í samfélaginu. Þau eiga að vera aðgengileg og auðvelt að fara í gegnum þau. Mér tókst ekki að breyta þessu í minni tíð í fjármálaráðuneytinu en við þurfum öll að vinna að því að breyta þessu og eins og ég segi bind ég vonir við að það muni gerast í nýjum lögum um opinber fjármál.