144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[14:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því einmitt svolítið fyrir mér hvað nákvæmlega þurfi og það er að öllum algerlega ólöstuðum sem hlut eiga að máli, vegna þess að það er flókið og erfitt að breyta flóknum og viðamiklum kerfum almennt, hvort sem það eru hugbúnaðarkerfi eða einhver önnur.

Mér finnst það alla vega mjög jákvætt skref sem var stigið á seinasta kjörtímabili, að opna gögnin og setja þau fram á tölvutæku formi. Ég veit að þáverandi hæstv. ráðherra var gagnrýndur fyrir að setja þetta ekki fram á betri hátt fyrir hinn almenna tölvunotanda sem vill sjá lituð gröf og kökurit og annað slíkt. Sú framsetning er auðvitað mjög jákvæð en helsta málið er að gögnin séu á tölvutæku formi þannig að aðrir en ríkið geti komið sem best að því að greina þau. Ég tel það í raun langskynsamlegast og í því felst líka gagnlegasta gegnsæið, vegna þess að ef ríkið er alltaf að skoða sjálft sig og eigin gögn er það með öðru hugarfari en ef einhver úti í bæ ætlar að skoða málið frá öðru sjónarhorni en því sem þingið og ríkið getur stöðu sinnar vegna.

Ég ítreka að mér þótti mjög mikilvægt skref stigið á síðasta kjörtímabili og ég vona að þau haldi áfram og þetta verði einhvern tíma þannig að í raun og veru hver sem er geti í meginatriðum fundið út úr því hvernig fjárlögin og lokafjárlögin og allt það virkar, geti kannski ekki fengið þetta allt saman algerlega á hreint, ekki frekar en jafnvel færustu sérfræðingar, en skilið auðveldar stórar myndir og stórar tölur og samhengi stórra talna.