144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[15:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa talsverða vanþekkingu á því hvernig málum er háttað frá tæknilegu sjónarmiði hjá borginni. Það er tölvumaður úr okkar röðum þar sem væntanlega hefur sterka sýn á það. Það litla sem ég veit um þau kerfi er að þau virðast ekki gera ráð fyrir tölvuvæðingu, þau virðast ekki gera ráð fyrir því að gögn borgarinnar séu meðhöndluð fyrst og fremst rafrænt. Það er dæmigert. Það er ekki vandamál sem er einstakt fyrir ríkið í sjálfu sér heldur einfaldlega til komið af þeirri staðreynd að um er að ræða gamla ferla og gamalt verklag sem passar einfaldlega ekki inn í eitthvað sem er algjörlega klippt og skorið, eins og stærðfræðin og tölvunarfræðin sem er það að næstum því öllu leyti. Það er ekki fyrr en maður er kominn út í pælingar með gervigreind sem sá múr er brotinn. Þetta er alltaf vandamál, sérstaklega þegar verklag hefur áratugum eða árhundruðum saman, eða hvað það nú er, verið þannig að það stólar á mannlega dómgreind. Einfaldir hlutir eins og stafsetningarvillur, sem mannfólk getur auðveldlega komist í gegnum, eru miklu erfiðari fyrir tölvur, ekki óyfirstíganlegir en miklu erfiðari og það flækir ofboðslega mikið. Einfaldir hlutir eins og það hvort orðið greinargerð í frumvarpi endar á punkti eða ekki getur þvælst fyrir, hvaða leturgerð er notuð getur þvælst fyrir. Alls konar smáatriði sem manneskjur pæla ekkert í vefjast mikið fyrir tölvum. Tölvur eru nautheimskar í sjálfu sér og hafa enga mannlega dómgreind, kannski sem betur fer.

Eins og ég segi þekki ég ekki málin hjá borginni nema að því leyti að þar, eins og víðar, eru svona vandamál og þegar kemur að fjármálum borgarinnar verð ég að játa að ég veit enn þá minna um þau en hvernig er með málin. En sveitarfélögin, alla vega borgin og Alþingi virka á ofboðslega ólíkan hátt. Það kom mér á óvart þegar ég fór að eiga í meiri samskiptum við borgarfulltrúa okkar hvað þetta eru í raun ólík kerfi og ólíkir ferlar, hvað það er margt ólíkt með Alþingi og sveitarstjórn.