144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[15:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt að ég veit miklu meira um það hvernig þessum málum er háttað hjá ríkinu en hjá borginni. Ég þori ekki að fara út í greiningu á því, það að meta tíma og kostnað við hugbúnaðargerð er alveg heljarinnar verk, það er mjög erfitt (Gripið fram í.)og dæmigert að hugbúnaðarverkefni (Gripið fram í.)fari fram úr tímamörkum og kostnaði. Hins vegar er helsti hugbúnaðurinn sem ríkið notar að veigamiklu leyti sérsmíðaður og hugsaður til þess að taka sérstaklega tillit til þarfa ríkisins. Það hefur reyndar verið mjög langt og erfitt ferli og menn muna hvernig það hefur valdið miklum pólitískum hneykslum og í einu orði sagt leiðindum í kringum það allt saman. Ég held að það sé alveg þess virði að skoða það mál með mjög gagnrýnum augum upp á framtíðina, vegna þess að fyrr eða síðar munum við skipta þessu út og fyrr eða síðar munum við gera eitthvað annað og þá er gott að vera búin að læra af reynslunni og reynslan er mikil.

Ég gæti staðið hér og gagnrýnt lengi allt í kringum það og í raun óháð því hvort um er að ræða tæknileg atriði eða einhver önnur. Eftir stendur að búa þannig um að þetta sé birt á þann hátt að sem auðveldast sé fyrir almenning að nota það. Það er tvíþætt verk, það er ekki aðeins spurning um hvaða hugbúnaður er notaður heldur spurning um það hvernig verkferlar eru og hvernig gamlir verkferlar eru og hvernig hægt er að sníða þá að tölvunum. Eitt af því sem er erfiðast fyrir stjórnsýsluna er að breyta verkferlum á þann hátt að þeir henti tölvum betur en jafnvel fólkinu sem á að fara eftir þeim. Þar liggur oft stóri vandinn og þar liggja mjög oft veigamestu mistökin þegar kemur að rafvæðingu ýmissa gagna eða ferla.

Ég þori engan veginn að meta það hér og nú hversu kostnaðarsamt eða tímafrekt slíkt verk yrði, hvorki hér né í borginni. Ég mundi frekar stinga upp á því að það væri sérstakt verkefni að komast að því og reyna að gera það vel og með hliðsjón af reynslunni, eins og ég segi er reynslan mjög mikil og síður en svo falleg.