144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

dómstólar.

669. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar í þessu máli er varðar fjölda hæstaréttardómara. Með þessu frumvarpi er lagt til að dómurum í Hæstarétti verði fjölgað tímabundið úr níu í tíu frá og með 1. september 2015. Þessi heimild er tímabundin og gert ráð fyrir að hún falli niður 31. desember 2016.

Það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að álag á Hæstarétti væri mikið sökum málafjölda, auk þess væru mál þyngri í vinnslu en áður. Mál sem eiga rætur að rekja til hruns fjármálakerfisins og afleiðinga þess eru enn í meðferð hjá dómstólnum. Við áréttum í okkar nefndaráliti að það kemur fram í ársskýrslu Hæstaréttar fyrir árið 2014 að skráð ný mál hafi aldrei verið fleiri. Málum fjölgaði á árinu 2014 um 36 frá árinu áður og eru skráð mál 111, þ.e. 13% fleiri en meðaltal áranna 2008–2013. Kærum í einkamálum hefur jafnframt fjölgað verulega og eru þær 96, þ.e. 33% fleiri en meðaltal þeirra ára sem ég hér rakti.

Í ljósi þessa að það er mjög mikilvægt að málshraða sé haldið í viðunandi horfi þá teljum við í nefndinni brýnt að frumvarpið nái fram að ganga og leggjum til að það verði samþykkt óbreytt. Undir þetta nefndarálit skrifar sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Anna María Elíasdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Geir Jón Þórisson.