144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

forsendur stöðugleikaskatts.

[10:04]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Alþingi hefur nú til meðferðar frumvarp ríkisstjórnarinnar um stöðugleikaskatt og breytingar á lögum um nauðasamninga til þess að greiða fyrir úrlausn þess vanda er þrotabú hinna föllnu banka skapa fyrir greiðslujöfnuð þjóðarinnar. Við meðferð þeirra mála hefur komið í ljós að af hálfu ríkisstjórnarinnar er lagt upp með stöðugleikaskatt sem skilað geti í kringum 850 milljörðum kr. í ríkissjóð til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs. Af hálfu stjórnvalda eru færð fyrir því gild rök að sá hái skattur upp á 39% af eignum þrotabúanna standist efnisrök og sé í samræmi við þarfir þjóðarbúsins.

Ég verð að segja að ég get í grófum dráttum, miðað við það sem lagt er upp með, fallist á þá greiningu. Þegar kemur hins vegar að hugmyndinni um nauðasamninga og framlag þrotabúanna á móti, hið svokallaða stöðugleikaframlag, liggur fyrir af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að ef þrotabúin fallist á tilgreind stöðugleikaskilyrði, sem reyndar hafa ekki verið birt opinberlega og við vitum ekki hver eru nákvæmlega, muni þau greiða þar með í ríkissjóð einhvers staðar í kringum 450 milljarða kr. Mismunurinn er þar af leiðandi gríðarlegur. Það munar eiginlega um 400 milljörðum kr. á því hvort þrotabúin og kröfuhafarnir standa skil á skattinum eins og hann er lagður upp eða hvort þau greiða þetta framlag.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé algjörlega sannfærður um að það séu efnisrök fyrir því að veita kröfuhöfunum þennan afslátt og að það sé engin leið að ganga lengra gagnvart þeim.