144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

forsendur stöðugleikaskatts.

[10:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að sleppa því að svara skítkasti hæstv. forsætisráðherra í minn garð eða Samfylkingarinnar, en ég ætla að ítreka spurningu mína um hvort hann telji þetta vera fullnægjandi niðurstöðu. Ástæðan er náttúrlega sú að við vitum ekki hver þessi stöðugleikaskilyrði eru, þau hafa ekki verið birt opinberlega. Það hefur verið kallað eftir því, t.d. af fulltrúum InDefence og ég hef mikla samúð með því sjónarmiði, að þau verði birt opinberlega og það verði með einhverjum hætti ljóst hver þau eru.

Eins og hv. forsætisráðherra leggur málið upp eigum við bara að afhenda honum og Seðlabankanum fullnaðarvald um að ákveða hvað það er sem lagt verði af mörkum af hálfu kröfuhafanna og það á ekkert gagnsæi að vera í því og enginn að geta fylgst með því hvert það framlag er. Það finnst mér ekki skynsamleg leið við þessar aðstæður. Við þurfum að vita að gengið hafi verið alla leið og allt samningssvigrúmið sem skapað var af fyrri ríkisstjórn hafi verið nýtt til fulls. (Forseti hringir.) Og er hæstv. forsætisráðherra bjargfastlega þeirrar skoðunar að það hafi verið gert?