144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

forsendur stöðugleikaskatts.

[10:10]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður nefnir eitthvert svigrúm síðustu ríkisstjórnar þá er kannski rétt að minna á að sú aðferð sem síðasta ríkisstjórn ætlaði að fara leit algjörlega fram hjá slitabúunum og öllum kröfuhöfum slitabúanna, öllum þessum 850 milljörðum eða 1.000 milljörðum eða hvaða upphæð sem við erum að tala um, það var bara litið fram hjá því. Allt tal um eitthvert svigrúm síðustu ríkisstjórnar hljómar því hálfkostulega, virðulegur forseti.

Það liggur fyrir og kom fram þegar þegar málið var kynnt hvað fælist í stöðugleikaskilyrðunum, um hvað þau snerust. Þau snúast um stöðugleikaframlag og ýmsar ráðstafanir aðrar sem hv. þingmaður hlýtur að þekkja, hlýtur að vera búinn að kynna sér og hlýtur líka að vera þeirrar skoðunar að ef þetta er hannað til þess að tryggja það að sama hversu stór vandinn verður þá muni það skila (Forseti hringir.) nægilega háum upphæðum til þess að takast á við þann vanda þá sé það ekki síðri leið en skattur.