144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

ummæli ráðherra um hótanir kröfuhafa.

[10:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég er á skyldum slóðum en þó aðeins út frá öðru. Hæstv. forsætisráðherra upplýsir það óaðspurður í framhjáhlaupi í viðtali við DV um helgina að sér hafi verið hótað, honum og/eða landinu hafi verið hótað í tengslum við vinnu til undirbúnings afnámi gjaldeyrishafta. Nú stendur svo merkilega á að á sama tíma erum við með frumvörp til skoðunar þar sem annað gengur út á að greiða götu þess að kröfuhafar, sem þarf ekki mikið hugmyndaflug til að láta sér detta í hug að hafi staðið fyrir eða staðið á bak við þessar hótanir, geti gert nauðasamninga og allt bendir til að þeir velji þá leið og telji hana mun hagstæðari en að greiða skattinn.

Mér finnst eiginlega nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra fái að minnsta kosti tækifæri til að upplýsa Alþingi betur um þetta mál. Almennt á að taka það alvarlega ef mönnum er hótað, ég tala nú ekki um ef forsætisráðherra lands eða landi er hótað.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er eða var eitthvað þarna á ferðinni sem hæstv. forsætisráðherra vill upplýsa Alþingi um? Er eða var eitthvað þarna á ferðinni sem þingið þarf að vita af eða að minnsta kosti efnahags- og viðskiptanefnd vegna vinnu sinnar við afnám gjaldeyrishafta? Hefur hæstv. forsætisráðherra kært þessar hótanir eða hyggst hann gera það? Hefur hæstv. forsætisráðherra upplýst lögregluna um þessar hótanir eða hyggst hann gera það?

Mér finnst erfitt að búa við að hafa engar aðrar upplýsingar en þessar óljósu fréttir úr viðtalinu í DV en af einhverjum ástæðum valdi hæstv. forsætisráðherra að setja þetta í loftið, hafði að því frumkvæði. Eins og ég las viðtalið barst honum ekki bein spurning um það heldur skaut því að og mér finnst þess vegna lágmark að hann geri Alþingi grein fyrir því hvað þarna var á ferðinni. Ef þetta er af því tagi eða svo viðkvæmt að hann telji sig ekki geta upplýst um það opinberlega væri fróðlegt að vita hvort hann ætlar að leita annarra leiða, svo sem eins og að kæra þetta til lögreglu.