144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

ummæli ráðherra um hótanir kröfuhafa.

[10:15]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég var í sjálfu sér ekki að spyrja um Icesave en hæstv. forsætisráðherra man greinilega eftir því. Ég hóf ekki máls á þessu hér til þess að forsætisráðherra geti komið því enn einu sinni á framfæri við þjóðina að hann væri hetja sem léti ekki kúga sig eða hóta sér. Það vitum við auðvitað öll, hann er búinn að segja það svo oft sjálfur að það liggur alveg fyrir opinberlega.

Ég var að reyna að lýsa aðeins inn í það hvort eitthvað hefði gerst sem mögulega ætti erindi inn í skoðun Alþingis á þessum málum. Það vill svo til að við erum að fjalla um frumvörp sem eru gagngert til þess að greiða götu þess að samningar þessara aðila gangi í gegn sem að vísu má ekki kalla samninga því að það er eitthvað viðkvæmt, en það er nú þannig og það er meira að segja verið að leggja til við okkur breytingar á þessum frumvörpum til að gera það enn líklegra að samningsniðurstaðan sem liggur fyrir gagnvart lykilkröfuhöfum stóru búanna geti greiðlega gengið í gegn hér fyrir áramót. Væri þá ekki ástæða til að vita það að minnsta kosti ef þeir aðilar hafa að undanförnu (Forseti hringir.) staðið fyrir svona hlutum? Það kunna að vera efasemdir um að þessi nauðasamningaleið sé nægjanleg til að taka þennan vanda út úr hagkerfinu og þá fara menn að leita skýringa og spurningar vakna um hvers vegna hún var engu að síður valin en ekki skatturinn. (Forseti hringir.) Ég held að forsætisráðherra verði að gera aðeins betur en þetta.