144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

vistvæn vottun matvæla.

[10:18]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja út í vistvæna vottun matvæla. Ég sendi skriflega fyrirspurn fyrir held ég tveimur mánuðum, ég var reyndar búin að gleyma því en það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að undirbúa þetta því að ég er ekki enn þá komin með svör við henni. Það voru tvær einfaldar spurningar og ég vil að fyrirspurnin standi áfram þó að ég hafi hérna tækifæri til að ræða aðeins við ráðherra um þessi mál.

Staðreyndin er sú að vistvæn vottun matvæla er villandi fyrir neytendur. Mig minnir að það hafi verið árið 2004 eða 2005 sem Neytendasamtökin hafi sent erindi til Samkeppnisstofnunar, sem þá hét, vegna þess að þau töldu að þetta væri villandi fyrir neytendur og ætti í rauninni ekki að heimila að merkja vörur á þennan hátt. Samkeppnisstofnun held ég að hafi vísað málinu frá. Það gerðist í rauninni ekkert meira í því máli en núna, tíu árum seinna, held ég að allir séu komnir á þá skoðun að þetta sé ólíðandi. Ég veit að ráðherra skipaði starfshóp um málið í fyrra sem skilaði niðurstöðu og eftir því sem ég veit best leggur hópurinn til að reglugerð eins og þessi vistvæna vottun byggir á verði felld niður, að menn hætti með þetta og ef menn vilja hafa einhvers konar vistvæna vottun verði það gert með öðrum hætti, jafnvel bara að framleiðendur komi sér saman. Það er ekkert eftirlit með þessari vistvænu vottun í dag. Í hvert skipti sem ég fer út í búð sé ég íslenskar landbúnaðarvörur merktar með vistvænni vottun og ég er farin gagngert að sniðganga þær vörur því að ég hef enga fullvissu fyrir því að ég sé að borga hærra verð fyrir betri vöru, vöru sem byggir á því að betur sé farið með dýrin eða umhverfissjónarmið eða hvað sem þetta á að standa fyrir.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig málin standa núna, hvort búið sé að afnema reglugerðina eða hvað maður kallar það.