144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í heilbrigðiskerfinu.

[10:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður spyr hvort samningurinn sem ríkið gerði sé ekki nægilega góður þá verð ég að minna hv. þingmann á að það eru tveir aðilar að þessum samningi, þ.e. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkið. Þetta er samkomulag tveggja samninganefnda. Samningur er núna til kynningar hjá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og þau eru að fara með kynningu á samningnum til sinna félagsmanna.

Ég tel algjörlega óþarft að vera að velta mér upp úr einhverri stöðu áður en á það reynir hvernig fer með þennan samning. Það er alveg ljóst að hann fullnustar ekki ýtrustu væntingar hjúkrunarfræðinga, það er deginum ljósara miðað við þau viðbrögð sem við höfum fengið opinberlega við þessari samningsniðurstöðu. Engu að síður er þetta sú niðurstaða sem náðist á þessum fundi og ef hún gengur ekki eftir (Forseti hringir.) þá verður einfaldlega að leggjast yfir málin og meta stöðuna þegar þar að kemur.