144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í landbúnaði eftir verkfall dýralækna.

[10:31]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina spurningu til hæstv. landbúnaðarráðherra. Eins og við vitum voru lög sett á verkföll félaga innan BHM og þar undir falla dýralæknar. Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvernig staðan er hjá bændum, þ.e. framleiðendum, og afurðastöðvum eftir þetta langa verkfall sem hófst 20. apríl síðastliðinn og hvort eitthvað hafi borið á því að dýralæknar hafi sagt upp störfum í kjölfar laga á verkföll og hvort hætta sé á því að dýralæknar séu að skoða möguleika á, eins og margir aðrir, að fara til annarra landa, til dæmis Noregs, til að leita sér að betur launuðum störfum.

Nú á það kannski eftir að koma í ljós, eftir að Hæstiréttur hefur að skipa þrjá menn í gerðardóm og gerðardómur kveðið upp úr hvaða laun dýralæknar fá í kjölfarið eða hvaða hækkanir, hvað dýralæknar gera í þeim efnum. Þeir halda kannski að sér höndum þar til það kemur í ljós. En mig langar heyra hjá hæstv. ráðherra hvort til sé einhver öryggis- eða neyðaráætlun ef af uppsögnum dýralækna verður í kjölfar gerðardóms, eða ef þær eru farnar að verða í dag að veruleika. Og hver staðan er í þessari grein í kjölfar hins langa verkfalls sem hefur verið hjá dýralæknum ríkisins, eftirlitsdýralæknum og héraðsdýralæknum.