144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í landbúnaði eftir verkfall dýralækna.

[10:34]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eftir níu, tíu vikna verkfall var og er auðvitað ljóst að staða bænda, þeirra sem ekki komu gripum sínum í slátrun og gátu þar af leiðandi ekki viðhaldið eðlilegum rekstri, er mjög erfið, ekki síst hjá kjúklinga- og svínabændum, en einnig hjá nautgripabændum eins og við þekkjum og var orðinn skortur á slíkum vörum í búðum. Eftir verkfallið er staðan auðvitað erfið hjá þeim bændum, þar sem tekjuflæði þeirra var ekkert í rúma tvo mánuði. Ég býst því við að sú staða sé erfið og verði það áfram og býsna erfitt verði fyrir þá marga hverja að komast út úr því öllu. En eftir að lög á verkfallið voru sett fór aftur á móti öll starfsemi í gang og innflutningur hefur komist í eðlilegt horf og ég veit ekki betur en að slátrunin hafi gengið mjög vel, biðlistar eru sjálfsagt eftir því að komast þar inn vegna þess hversu langt verkfallið var og hversu erfið staða var komin upp víða á búum.

Ég þekki ekki til þess að neinir dýralæknar hafi sagt upp, án þess að hafa fengið nánari upplýsingar um það og hef ekki leitað eftir því. Það hefur verið erfitt að manna dýralæknastöður hringinn í kringum landið í mjög langan tíma, sennilega einhverja áratugi, og það verður það örugglega áfram hér eftir sem hingað til og ekki eingöngu út af því sem snýr að einstökum kjörum heldur einfaldlega vegna þess að menn eru að leita eftir ákveðnum aðstæðum sem þeir sjá kannski ekki fyrir sér sem einyrkjar einhvers staðar þar sem takmörk eru fyrir að fá sín faglegheit, nýútskrifaðir úr námi, uppfyllt. Og það er ekki nýtt.