144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

staðan í landbúnaði eftir verkfall dýralækna.

[10:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Matvælastofnun hefur sent út spurningalista til að kanna umfang þess fjárdauða sem komst í hámæli fyrir nokkrum vikum og menn höfðu miklar áhyggjur af að væri mun stórfelldari en niðurstöður spurningalistanna bera með sér. Engu að síður er það umtalsvert á einstökum svæðum og einstökum bæjum. Ef ég man rétt voru það um 14% á þeim bæjum þar sem það var hæst en mun minna og kannski í heildina 2–3%. Í venjulegu árferði eru alltaf einhver afföll á vorin við sauðburð en þetta vorið var það sýnu meira og stafar það sjálfsagt af ýmsum þáttum. Hvað varðar að bæta tjón hefur það ekki fyllilega verið leyst og ekki búið að rannsaka til hlítar þannig að hægt sé að upplýsa það hér í stóli Alþingis.