144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

meðferð sakamála og lögreglulög.

430. mál
[10:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér er í sjálfu sér ágætismál sem er að verða að veruleika er varðar breytingu á skipan héraðssaksóknara sem meðal annars á að taka við málefnum sérstaks saksóknara sem átti nú að leggja niður eftir tvo daga; þörf var á að breyta vegna þess að hér hefur ýmislegt gengið hægar fyrir sig en ella. Þar sem ég undirrita nefndarálitið með fyrirvara langaði mig til að gera grein fyrir honum og það er vegna þess að metið er að það vanti fjármagn upp á í kringum 325 millj. kr. til að breytingin geti orðið að veruleika og ekki er gert ráð fyrir þessu viðbótarfjármagni til þess að embættið geti starfað. Eins og við vitum er sérstakur saksóknari með allt of mikið af málum og málshraðinn ekki nægur eins og staðan er í dag og hvað þá þegar verður búið að bæta við hér öðrum málum þrátt fyrir að hans (Forseti hringir.) fjármagn flytjist yfir. Því munum við vinstri græn sitja hjá.