144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:49]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þetta hrós um ríkisstjórnina sem nú stjórnar landinu. Við vitum það öll og það hefur verið farið yfir það að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar var að skera niður froðukosningaloforð sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt fram fyrir kosningarnar 2013.

Það er gleðilegt að á þetta nefndarálit skrifi fjárlaganefnd í heilu lagi og styðji þetta mál. Á síðasta ári, þegar var verið að afgreiða lokafjárlög 2012, treysti stjórnarandstaðan sér ekki til að vera á málinu og greiða atkvæði með því, sem kannski vísar í þann vitnisburð sem fyrri ríkisstjórn hafði og þá trú sem þau höfðu á sínum eigin fjárlögum. Það er einn galli á þessu máli, sá að þetta mál var tekið úr fjárlaganefnd 27. apríl 2015 og ástandið í þinginu hefur verið slíkt síðan að ekki var hægt að taka þetta til 2. umr. og afgreiðslu fyrr en í dag en þetta verður vonandi að lögum í vikunni.