144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er áhugavert að heyra hv. formann fjárlaganefndar tala hér. Ég man ekki til þess að það hafi verið skorið niður um 16–20 milljarða hér á síðari hluta ársins 2013. Þegar hæstv. núverandi ríkisstjórn tók við var spáð afkomu upp á mínus 16 milljarða vegna fyrri ríkisstjórnar. Það var bara vanmetið og við skiluðum mun betra búi en núverandi ríkisstjórn taldi að hún væri að taka við. Það er ágætt að halda því til haga, það er meðal annars staðfest í Markaðspunktum Arion banka og í ríkisfjármálaáætlun núverandi hæstv. fjármálaráðherra. Þegar við horfum fram hjá óreglulegum liðum er afkoma ríkissjóðs jákvæð árið 2013 um 9 milljarða og batnar um 20 milljarða milli ára. Svo er það þessi umtalsverði árangur sem náðist síðastliðin fimm ár þar sem afkoman batnaði jafnt og þétt og er tæplega 120 milljónum milljörðum betri en á árinu 2009. Það er mikilvægt að halda því til haga að það var ekki skorið niður hér um tugi milljarða (Forseti hringir.) heldur var það meðal annars bankaskattur sem þar kom inn sem bætti stöðuna.