144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar dagsetningar eru ekkert á floti, þær eru partur af samkomulaginu um þinglok. Ráðherrann er væntanlegan bundin af því samkomulagi eins og við hin. Þegar rætt hefur verið um það á fundi þingflokksformanna, nú síðast í gær þegar allir þingflokksformenn settu stafina sína á blað við dagsetninguna 15. nóvember, þá hafði það væntanlega einhverja þýðingu. Ég tek það mjög alvarlega þegar hæstv. ráðherra talar núna um einhvern teygjanleika og sveigjanleika og 1. desember sem hefði svo sem alveg getað orðið niðurstaðan en varð ekki. 1. desember varð ekki niðurstaðan, niðurstaðan varð 15. nóvember. Það skiptir mjög miklu máli að ráðherrann sé algerlega á sömu blaðsíðu og við í þeim efnum að þegar frumvarpið sem hér er mælt fyrir verður afgreitt frá þinginu nú í þinglokum á sumrinu 2015 þá verði breytingartillaga samþykkt í samræmi við samkomulag allra þingflokka, (Forseti hringir.) sem kveði á um að gildistími sé 15. nóvember 2015. Annars held ég að það sé ástæða til að við setjumst yfir (Forseti hringir.) þau mál aftur.