144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:17]
Horfa

Haraldur Einarsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í andsvari til að þakka hæstv. ráðherra fyrir það samstarf sem ráðherrann og ráðuneytið hefur átt með nefndinni í þessu máli. Þetta er grundvallarlöggjöf eins og ráðherrann fór yfir og gríðarlega mikilvægt að góð samstaða sé á öllum vígstöðvum í þjóðfélaginu um þá grundvallarlöggjöf.

Aðeins hefur verið vikið að dagsetningum og ég skal taka undir það með ráðherranum að gildistakan 1. janúar er óheppileg að því leyti að þetta gæti lent í desembertraffíkinni og finnst þar af leiðandi 1. mars skárri en fyrrnefnd dagsetning en mér líst líka ágætlega á 15. nóvember.

Hæstv. forseti. Ég vil ekki skapa óróa með næstu orðum mínum en mér finnst í hæsta falli óeðlilegt ef það er ákveðið á fundum þingflokksformanna hvernig breytingartillögur úr nefndinni (Gripið fram í.) — ég geri ráð fyrir að það sé samkomulag en mér finnst samt óeðlilegt að breytingartillögur komi úr nefndinni og mér finnst ekki að þetta eigi að snúast um tímalengdir, þetta snýst um vinnubrögðin og efnisatriðin, hvað efnislega kemur út úr þessari vinnu okkar.

En að þessu sögðu held ég að 15. nóvember sé nægur tími fyrir nefndina. Við erum mjög vel inni í þessum málaflokki, allir nefndarmenn. Það eru tæpir tveir mánuðir sem við fáum ef málið kemur inn strax á fyrstu dögum og það ber ekki mikið á milli nefndarmanna, ég held því að þessi tími, 15. nóvember, sé ágætur. En ég hef samt ekki beina spurningu til ráðherrans.