144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:19]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svolítið sérstök staða sem ég er í, hvernig á ég nú að segja frá þessu, það virðist vera meiri samstaða milli mín og stjórnarandstöðu í umhverfis- og samgöngunefnd um málið en við mína ágætu samherja vegna þess, sem eðlilegt er þegar komið er að lokum þings, að menn setjast niður og reyna að ræða málin og það er mjög af hinu góða. Ég vil þakka þeim nefndarmönnum sem starfa í nefndinni fyrir ágæta samræðu sem við áttum í síðustu viku og þar kom fram sú eindregna ósk að betra væri að flýta gildistökuákvæðinu fyrr fram á haustið. Mér skilst að ég hafi mismælt mig hér einhvern tíma í ræðu minni og notað marsmánuð en það voru alger mismæli. Marsmánuður er prýðismánuður en ég ætlaði að flýta gildistökunni en ekki seinka henni, svo því sé til skila haldið. Mér var ekki ljóst að mér hafi orðið þetta á, en bið okkur öll um að sammælast um að reyna að vinna þannig að við náum þessu fyrir 15. nóvember. Frumvarpið mun koma til nefndarinnar strax í ágústmánuði þannig að áður en þing hefst getur nefndin verið búin að fá frumvarpið til umfjöllunar og skoðunar.