144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:23]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat það sem ég vil. Ég vil að haldnar séu ræður í þessu máli. Ég vil hins vegar ekki að það verði margra mánaða málþóf. Ég held að enginn vilji það. Það er hægt að misnota réttinn til að tala. Tjáningarfrelsið er stjórnarskrárvarið en á því eru takmörk. Ræðutími á Alþingi er af skornum skammti, hann er takmarkaður. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur ekki eins og áður komið hingað og haldið ræður í marga daga þangað til hann þarf að bregða sér afsíðis, það er ekki þannig. (ÖS: Ég hef nú góða blöðru.)

Varðandi samsæriskenningar þá var ég einfaldlega að hvetja þingmanninn til að ræða efnislega um málið í stað þess að vera með eins konar samsæriskenningar. Mér finnst það miður. Ég fann því alls ekki allt til foráttu að hægt væri að ná sátt. Ég ætla að sjálfsögðu að beita mér fyrir því og reyna það. Tveir mánuðir ættu að duga, ég held það. (Forseti hringir.) Ég var bara að benda á að það væri óþarfi að setja (Forseti hringir.) einhverja tímapressu á þetta mál. Það er það sem ég er að benda á í þessu máli.