144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að leggja samsæriskenningarnar til hvílu: Menn mega ekki gleyma því hvernig þetta mál hófst. Það hófst þannig að hingað kom ráðherra undir fullum seglum, eins og skonnorta inn í þingsal, og sagði bara: Hey krakkar, nú sláum við þessi lög af! — og hélt að það væri hægt að gera með því að smella fingri. En sá ráðherra sem kíkir þarna inn um gættina hefur að vísu lært af reynslunni og er allt annar, nýr og betri maður eftir þessa fyrstu reynslu sína.

Í því ljósi er skiljanlegt að menn hafi varann á sér. Ég tek viljann fyrir verkið. Mér finnst gott hjá hv. þingmanni að lýsa því hér yfir að hann telji að tveir mánuðir geti verið nóg til að vinna þetta mál til lykta. Þá finnst mér alla vega að hv. þingmaður hafi tekið tillit til þess viðhorfs sem ég hef í málinu. Ég vil þetta mál frá. Ég vil sjá þessi lög. Ég geri mér grein fyrir því, ég hef haldið margar ræður um það hér á fyrra kjörtímabili, að menn þurfa að slá af. Ég er reiðubúinn til þess í ákveðnum málum og hef gert það (Forseti hringir.) nú þegar, en hv. þingmaður verður að gefa okkur tíma til að ljúka (Forseti hringir.) málinu.