144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:34]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri á þingmanninum að hann er að byrja að vinna að sáttinni, þetta er góður grunnur sem hann er að leggja hér til. En mig langar að spyrja hann, vegna þess að hann segir í ræðu sinni að hann telji að óþarfi hafi verið að setja tímamörk, að það sé ekki málinu til framdráttar að setja tímamörk. Nú er það svo að þau tímamörk sem við erum að vinna með akkúrat núna eru ekki á morgun heldur hinn, þ.e. miðvikudagurinn 1. júlí. Þá spyr ég, vegna þess að frumvarpið sem ráðherrann mælir fyrir gerir ráð fyrir að gildistíminn sé 1. janúar 2016, og þingmaðurinn leitast hér við að tala sig frá samkomulagi þingflokksformanna um 15. nóvember: Hvað er það sem hv. þingmaður leggur til? Eða hefur hann einhverja tillögu fram að leggja um það hvernig umhverfis- og samgöngunefnd eigi að ljúka því þingmáli sem hér er til umfjöllunar?