144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:35]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að nefndin eigi að gefa sér tíma til að fara yfir þau fimm atriði sem ágreiningur hefur ríkt um í umhverfis- og samgöngunefnd, ég er þeirrar skoðunar. Ég er líka þeirrar skoðunar að við eigum að hafa rýmri frest til að klára þetta mál og ég get alveg sagt það einu sinni enn, ég tel að myndast gæti sú staða, ég vona ekki, að þessi tími væri of naumur. Það sem gerist þá er að þá eyðileggjast lögin um náttúruvernd og mér þykir það miður. Aðalatriðið í þessu er að við ljúkum vinnu við lög um náttúruvernd án allrar pressu. Ég held að það sé hægt, ég vona að það sé hægt og ef þingmaðurinn vill túlka orð mín sem einhverja andstöðu við það að ég vilji vinna málið í sátt, þá er það alger misskilningur. Ég vil vinna að málinu áfram í sátt, en ég hef bent á að stundum og jafnvel fyrir fram geta menn gefið sér að ekki verður sátt um alla hluti.