144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sat í fjárlaganefnd allt síðasta kjörtímabil. Það sem gerðist iðulega, því miður, var að ekki var gert ráð fyrir einhverju sem ekki var orðið að veruleika. Menn geta svo túlkað það á sinn átt, að það sé merki um að ekki hafi átt að vinna að því máli þrátt fyrir að það hafi verið eins skýrt og hugsast getur að verið væri að vinna að málinu í sátt og á faglegum grundvelli innan ráðuneytisins. Þess vegna velti ég fyrir mér af hverju hv. þingmaður var með akkúrat þetta innlegg, að gefa í skyn að ekki hafi staðið til að samþykkja lögin. Að sjálfsögðu stendur það til. Það stendur enn þá til og ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að það sé mjög mikilvægt að sátt náist og að við náum að klára náttúruverndarlögin. Ég mundi gjarnan vilja heyra hvort hann sé ekki sammála mér um að það sé betra að gera það án tímapressu en innan einhvers þröngs ramma.