144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

581. mál
[15:17]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu og nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar varðandi frumvarp til laga um breytingu á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, með síðari breytingum. Hér er mælt fyrir um undantekningu frá tryggingavernd.

Svo bar til að til nefndarinnar barst erindi þar sem talið var að vafi léki á tryggingarskyldu innstæðna, þ.e. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta leit svo á að fjármálafyrirtæki í slitameðferð teldust ekki fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002 og nytu innstæður þeirra því tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999. Jafnframt var vakin athygli ráðuneytisins á lagaóvissu um stöðu þessara innstæðna.

Nefndin fékk þetta frumvarp til umsagnar og lagði til að frumvarpið yrði samþykkt með einni breytingu þó þar sem orðshluti í skilabú, „skila-“, félli brott, samanber breytingartillögu sem fylgir þessu frumvarpi. Þetta frumvarp er mjög einfalt og tekur af vafa í máli þar sem upp kom vafi.

Undir þetta nefndarálit rita þann 23. mars 2015 eftirtaldir nefndarmenn í efnahags- og viðskiptanefnd: Frosti Sigurjónsson formaður, Vilhjálmur Bjarnason framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Steingrímsson, Steingrímur J. Sigfússon og Sigríður Á. Andersen.

Ég endurtek að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem lögð er til á þskj. 1098.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.