144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

4. mál
[15:33]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögu efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46 13. maí 2005 (EES-reglur, innleiðing). Nefndarálitið má finna á þskj. 1236 og breytingartillagan er á þskj. 1237. Ég mun rekja efnisatriði þeirra í aðalatriðum hér.

Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eiga rót sína að rekja til ákvæða tilskipunar EES frá maí 2009, um breytingu á tilskipun um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Fjárhagslegar tryggingarráðstafanir felast í tvíhliða samningum, einkum milli fjármálastofnana, um veðsetningu eða framsal verðbréfa eða reiðufjár til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum. Verði frumvarpið að lögum mun fjármálastofnunum verða heimilt að veðsetja eða framselja skuldakröfur til tryggingar fjárhagslegum skuldbindingum, t.d. í því tilfelli ef ein lánastofnun fær lausafé að láni hjá annarri.

Fyrir nefndinni voru gerðar athugasemdir við að svigrúm við innleiðingu tilskipunarinnar hefði ekki verið nýtt til fulls við gerð frumvarpsins. EES-ríkjum er heimilt að ákveða að skuldakröfur falli utan gildissviðs tilskipunarinnar ef skuldari er neytandi eða örfyrirtæki eða lítið fyrirtæki nema tryggingarveitandi sé seðlabanki.

Skilningur nefndarinnar er að markmið tilskipunar ESB sé að fjölga tiltækum tryggingum í því skyni að skapa greiðari aðgang að lánsfé innan ESB. Að mati nefndarinnar er þetta markmið skynsamlegt í umhverfi ESB-ríkjanna þar sem flæði peninga hefur ekki verið nægilegt undanfarin ár. Önnur staða er hins vegar á Íslandi þar sem magn peninga í umferð er of mikið. Peningamagn (M3) í umferð er um þessar mundir um 1.600 milljarðar kr. sem er um 400 milljörðum kr. meira en í árslok 2008.

Í frumvarpinu er lagt til að neytendalán, samanber lög nr. 33/2013, verði að meginreglu ekki talin skuldakröfur. Tvær undantekningar eru þó lagðar til frá fyrrgreindri meginreglu: Í fyrsta lagi neytendalán sem eru fasteignalán og í öðru lagi neytendalán að fjárhæð undir 200 evrum eða yfir 75 þúsund evrum. Í sérstökum skýringum við 2. gr. frumvarpsins kemur meðal annars fram að undanþága verði nýtt af varfærni enda sé mikilvægt að þær kröfur sem felldar verði undir hugtakið skuldakrafa teljist traustar tryggingar þar sem ætla megi að þær verði seldar eða nýttar til að takmarka áhættu seðlabanka og fjármálafyrirtækja af eigin áhættuskuldbindingum.

Nefndin tók til skoðunar hvernig svigrúm tilskipunarinnar hefur verið nýtt við innleiðingu í norsk lög. Að mati nefndarinnar er sú leið sem farin var við innleiðingu tilskipunarinnar í Noregi, hvað lán til neytenda varðar, skynsamleg. Þannig verði lán til neytenda, þ.e. einstaklinga sem eiga lánaviðskipti sem ekki eru gerð í atvinnuskyni, undanþegin skilgreiningu hugtaksins skuldakrafa. Afleiðingarnar verða þær að lán til neytenda geta ekki orðið andlag fjárhagslegrar tryggingar í skilningi 1. og 2. mgr. 3. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Við útfærslu tillögunnar leit nefndin til skilgreiningar á skuldakröfu í norskri löggjöf. Markmiðið er að lán veitt neytendum í skilningi laganna hafi sjálfstætt inntak sem er óháð hugtakinu neytendalán í skilningi laga um neytendalán. Áfram verður þó gert ráð fyrir því að lán til neytenda teljist skuldakröfur í skilningi c-liðar 2. gr. frumvarpsins þegar tryggingarhafi eða tryggingarveitandi eru seðlabankar eða aðrar stofnanir sem taldar eru upp í 2. tölulið 1. gr. laganna.

Í tilskipun 2009/44/EB er EES-ríkjum einnig veitt svigrúm til að ákveða að skuldakröfur falli ekki undir gildissvið tilskipunarinnar ef skuldarinn er örfyrirtæki eða lítið fyrirtæki eins og þau eru skilgreind í viðauka við tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB. Í sérstökum athugasemdum frumvarpsins kemur fram að við gerð þess hafi ekki þótt ástæða til þess að nýta þessa undanþáguheimild hvað varðar örfyrirtæki eða lítil fyrirtæki enda hafi slík fyrirtæki ekki verið skilgreind í íslenskri löggjöf auk þess sem mikill meiri hluti íslenskra fyrirtækja mundi teljast örfyrirtæki eða lítil fyrirtæki.

Að mati nefndarinnar er hins vegar eðlilegt að nýta það svigrúm sem tilskipun 2009/44/EB veitir við innleiðingu í íslenskan rétt. Hér að framan kom fram að skortur á peningum í umferð er ekki til staðar á Íslandi. Þá eiga sömu rök við um lán til örfyrirtækja og lítilla fyrirtækja og eiga við í tilviki lána til neytenda að breyttu breytanda.

Nefndin leggur til að lán sem veitt eru lánþegum sem eru örfyrirtæki eða lítil fyrirtæki teljist því ekki til skuldakrafna. Með örfyrirtæki er þá átt við fyrirtæki sem hefur færri en tíu starfsmenn og árlega veltu eða efnahagsreikning undir 300 millj. kr. Með litlu fyrirtæki er átt við fyrirtæki sem hefur færri en 50 starfsmenn og árlega veltu og/eða efnahagsreikning undir 1,5 milljörðum kr.

Að auki leggur nefndin til tæknilega lagfæringu á frumvarpinu með því að fella brott orðin „Fjárfestingarsjóður Evrópu“ úr b-lið 1. gr. til að forðast tvítekningu þar sem sjóðurinn er nú þegar nefndur framar í greininni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Árni Páll Árnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir álitið skrifa Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Líneik Anna Sævarsdóttir, Willum Þór Þórsson, Guðmundur Steingrímsson, Steingrímur J. Sigfússon, Sigríður Á. Andersen, Áslaug María Friðriksdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.