144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[15:45]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Framsögumaður þessa nefndarálits hefur farið ágætlega yfir það sem hér er verið að gera og breyta varðandi frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Fyrirvari minn á þessu máli gengur fyrst og fremst og nær eingöngu út á það að mér hefur ekki þótt vera settir nægir fjármunir í sóknaráætlanir. Landsbyggðin hefur í gegnum tíðina fengið margar góðar áætlanir um allt mögulegt milli himins og jarðar og frómar óskir í þeim efnum hafa komið frá hv. Alþingi, en það hafa ekki alltaf farið saman fjármunir og þau loforð eða væntingar sem hafa verið gefnar í áætlununum. Lög um sóknaráætlun hafa verið í gildi í þó nokkur ár. Það var verið að auka fjármagn í sóknaráætlanir stig frá stigi og voru miklar væntingar um að það mundi halda áfram eftir að þessi ríkisstjórn tók við, en því miður var raunin þveröfug og menn skáru hressilega niður þar þótt minni hlutanum tækist að ná einhverju til baka.

Eins mikilvægt og það er að samræma byggðaáætlun og ýmsar áætlanagerðir á sviði byggðamála og þá sóknaráætlun sem við höfum haft hér í nokkur ár þá er það alltaf þannig að það eru fjárlög hverju sinni sem segja til um það hvernig efndir eru og hvernig hægt er að uppfylla áætlanirnar. Ég held að þar standi hnífurinn í kúnni, það þarf miklu meira fjármagn að fylgja áætlununum, tryggt í fjárlagagerð hverju sinni, svo að hægt sé að vinna eftir þeim frómu loforðum og áætlunum sem lýst er í þeim fjölda áætlana sem gerðar hafa verið landsbyggðinni til framdráttar eða með þeirri stefnu að bæta þar atvinnu, styrkja byggð og auka menntun, styrkja svæðin heilt yfir.

Minn fyrirvari gengur fyrst og fremst út á þetta. Ég mun fylgja því eftir við gerð fjárlaga og fylgjast vel með því hvernig það verður, hvernig fjármunir verða veittir til þeirra verkefna sem hér eru undir.