144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

byggðaáætlun og sóknaráætlanir.

693. mál
[15:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla rétt aðeins að koma inn í þessa umræðu sem snýr fyrst og fremst að því að hér er verið að sameina og gera verkferla skýra. Þetta snertir meðal annars hinar margumræddu sóknaráætlanir landshluta, sem er verkefni sem komið var á í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur reynst afar gott og við höfum fjallað mjög mikið og oft um í tengslum við fjárlögin. Það hefur svolítið þurft að berjast fyrir þeim krónum sem fara þangað inn og ætlun fyrrverandi ríkisstjórnar var að setja töluvert mikla peninga í þetta verkefni, sem hefur því miður ekki gengið eftir hjá núverandi ríkisstjórn.

Það er ágætt og gott út af fyrir sig að verkferlarnir eða það sem snýr að stýrihópi og ferli og öðru slíku verði sett í einhvern fastan ramma, sem byggir þá á þeirri reynslu sem nú þegar er fengin. Það eru samt uppi áhyggjur, ég hef þær a.m.k., sérstaklega þegar kemur að menningarsamningunum.

Það var umdeilt að skella öllum þessum samningum saman undir vörumerkinu „Sóknaráætlun“. Ég tel að það sé greinilega farið að koma niður á verkefnunum nú þegar og það hefur fyrst og fremst með fjárveitingarnar að gera. Sá lýðræðishalli sem var verið að ræða áðan er eitt af því sem er misjafnt, það hvernig búið er um hjá hverjum fyrir sig, hverju kjördæmi fyrir sig eða á starfssvæði þeirra sem um þetta sjá, sem ég man ekki í augnablikinu. Á mínu starfssvæði eru það meðal annars Eyþing og Austurbrú sem hafa séð um þetta.

Afleiðingar þess hversu mikið hefur verið skorið niður er varðar þetta verkefni eru þær að menningarfulltrúar eru mjög víða komnir í hálfar stöður og mér hefur borist til eyrna að það hafi í för með sér að samstarfið verði ekki eins þétt og öflug og það er ekki lögð eins mikil áhersla á starf þeirra og viðbúið að fjari meira undan en við viljum.

Ég verð þó að segja að ánægjulegur atburður átti sér stað á föstudaginn var á Akureyri. Þá var ég viðstödd afhendingu styrkja úr uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra sem tók við af menningarráði Eyþings og vaxtarsamningi Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu undir þessu heiti, Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra. Það bárust 168 umsóknir og 93 af þeim fengu verkefnastyrki í menningu, 15 í stofn- og rekstrarstyrki menningar og 60 umsóknir bárust svo í atvinnuþróunar- og nýsköpunarhluta sjóðsins. Það var ánægjulegt að sjá að í þeim hluta var töluvert af konum sem hefur verið minna um undanfarin ár. Úthlutað var 82 millj. kr. í þessi menningar-, nýsköpunar- og atvinnuþróunarverkefni og var þetta afskaplega ánægjuleg og góð stund.

Betur má ef duga skal. Ef þetta á að geta orðið jafn frjótt og því var ætlað, þ.e. allir þeir þættir sem þarna eru undir, þá þarf auðvitað að leggja til aukið fé. Það er ekki bara ég, það eru margir aðrir sem hafa af því áhyggjur að þegar þetta er komið undir einn hatt muni eitthvað undan láta. Það virðist sem starf menningarfulltrúa sé það sem fyrst og fremst gefur eftir, a.m.k. nú í byrjun.

Við þurfum því að fylgja þessu enn þá betur eftir núna þegar það styttist í að við förum að fjalla um fjárlög aftur, því að þingið er orðið svo langt. Ég held að við þurfum að standa fast í fæturna gagnvart því ef við viljum sjá þessa styrki og þennan stuðning og þetta starf í sveitarfélögunum, sem þau eru svo afskaplega ánægð með sjálf og hafa ítrekað lýst yfir, m.a. á fundum með fjárlaganefnd og vildu fá í þetta aukna fjármuni og hafa haft ákveðnar efasemdir um sumt af því sem gert hefur verið í tíð núverandi ríkisstjórnar og varðar þau mál.

Varðandi það að festa ferlið í sessi með því að setja það í lög þá er það í sjálfu sér ágætt, en við þurfum að huga að því að styðja og styrkja enn þá betur við menninguna í þessum hluta þannig að menningarfulltrúar geti verið starfandi víðs vegar um land í meira en hálfu starfi, því að eins og við vitum og kom berlega í ljós á Akureyri á föstudaginn er gríðarlegur fjöldi sem sækir í þetta og út úr því koma alls konar gróskumikil verkefni sem styrkja og styðja við einyrkja í raun alls staðar á starfssvæðum. Ég held að þetta sé eitt af því sem getur viðhaldið byggð í hinum dreifðari byggðum landsins, að fólk geti nýtt sér tækifæri eins og þau sem er að finna í gegnum þetta ferli.