144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi.

11. mál
[16:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Þetta er nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin fjallaði um málið að nýju eftir 2. umr. Á fund hennar komu m.a. Ragnheiður E. Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Ingvar Pétur Guðbjörnsson, aðstoðarmaður ráðherra, Ingvi Már Pálsson og fleiri.

Við umfjöllun um málið var fjallað almennt um markmið með ívilnunum til nýfjárfestinga, forsendur fyrir veitingu þeirra og hvaða greiningar þurfi að liggja fyrir til að réttlætanlegt geti talist að veita ívilnun. Meðal markmiða frumvarpsins samkvæmt 1. gr. er að efla samkeppnishæfni Íslands. Meiri hlutinn telur að einnig þurfi að gæta að því að veiting ívilnana raski ekki um of samkeppnisstöðu fyrirtækja sem þegar eru starfandi hér á landi. Sem dæmi má nefna ef stór framleiðandi á tómötum fengi ívilnun og hygði á útflutning þeirrar vöru en þyrfti síðar að breyta því fyrirkomulagi og hasla sér völl á innanlandsmarkaði gæti slíkt stórlega raskað stöðu innlendra framleiðenda.

Í 12. gr. frumvarpsins er fjallað um mat á arðsemi fjárfestingarverkefnis. Í 2. mgr. þeirrar greinar er mælt fyrir um hlutverk þeirrar nefndar sem tekur á móti og fjallar um umsókn um ívilnun. Þar er kveðið á um að nefndin geti óskað þess að óháður sérfróður aðili leggi mat á fjárfestingarverkefni og arðsemi þess og vinni aðrar upplýsingar sem nauðsynlegt er að liggi fyrir áður en tekin er afstaða til umsóknar. Meiri hlutinn telur að þarna undir falli öflun upplýsinga um mat á áhrifum fjárfestingarverkefnis á starfsemi sem þegar er fyrir í landinu. Meiri hlutinn leggur til að við 12. gr. bætist ákvæði þess efnis að nefnd um ívilnanir skuli afla mats Byggðastofnunar á áhrifum verkefnis á byggðaþróun og mögulegum áhrifum á atvinnulíf. Það er meðal markmiða frumvarpsins að ívilnunarsamningur efli byggðaþróun, samanber 1. gr. þess. Verði frumvarpið svo breytt að lögum yrði það hlutverk Byggðastofnunar að meta hvort viðkomandi ívilnunarsamningur mundi að treysta byggð, efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Meiri hlutinn bendir á að í stefnumótandi byggðaáætlun sem var til umfjöllunar í nefndinni á 143. löggjafarþingi og var afgreidd frá þinginu, er sérstakur kafli tileinkaður nýfjárfestingu í atvinnurekstri.

Nefndinni barst minnisblað frá Byggðastofnun þar sem fram kemur að leggja þurfi mat á hvaða áhrif fjárfesting samkvæmt ívilnunarsamningi hefði á nærsamfélag til framtíðar, bæði hvað varðar fjölda starfa og samsetningu þeirra. Þá þyrfti að meta áhrif á störf fyrir konur og áhrif á fjölda starfa fyrir fólk með iðnmenntun og háskólamenntun. Auk þess væri gerð spá um heildarfjölgun íbúa og áhrif fjölgunar á eftirspurn eftir þjónustu einkaaðila og hins opinbera. Þá þyrfti að skoða heildaráhrif á viðkomandi sveitarfélag. Minnisblað Byggðastofnunar er birt sem fylgiskjal með áliti þessu og fram kemur í niðurlagi þess að hafa skuli til hliðsjónar ákvæði 4. gr. reglugerðar fyrir Byggðastofnun nr. 347/2000, en þar segir:

„Byggðastofnun skal við ákvarðanir sínar gæta jafnræðis milli aðila sem eru í sambærilegri stöðu. Þess skal sérstaklega gætt að fyrirgreiðsla stofnunarinnar til fyrirtækja og einstaklinga raski sem minnst samkeppnisstöðu annarra atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni.“

Tekur meiri hlutinn undir það að við mat Byggðastofnunar á fjárfestingarsamningum skuli og horft til framangreinds og til áhrifa á viðkomandi atvinnusvæði.

Við umfjöllun um málið komu fram athugasemdir frá skattyfirvöldum sem lutu einkum að því að æskilegt væri að ívilnanir eins og frumvarpið gerir ráð fyrir féllu sem best að skattframkvæmd. Meiri hlutinn mælist til þess að ráðuneytið og skattyfirvöld verði í samstarfi til að auðvelda skattframkvæmd.

Aðrar breytingar sem meiri hlutinn leggur til á frumvarpinu eru eftirfarandi:

Í 1. mgr. 12. gr. er mælt fyrir um að umsækjandi skuli sýna fram á að án ívilnunar verði fjárfesting ekki arðbær. Meiri hlutinn leggur til að þessi málsliður falli brott enda ekki sérstakt keppikefli að veita ívilnunarsamninga undir þessum formerkjum. Hins vegar liggur það skilyrði fyrir í d-lið 5. gr. að sýna skal fram á að veiting ívilnunar sé forsenda fyrir því að fjárfestingarverkefni verði að veruleika hér á landi.

Þá er lögð til breyting á gildistökugreininni sem miðar að því að mæla fyrir um að fjárfestingarsamningar sem falla undir reglugerð EB um almenna hópundanþágu (GBER) séu ekki háðir samþykki Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Beiting ákvæða þeirrar reglugerðar er ekki háð því að efni hennar sé innleitt í landsrétt heldur því að hún hafi verið tekin upp í EES-samninginn. GBER-reglugerðina þarf því ekki að innleiða eins og venjulega reglugerð en um er að ræða undanþágu frá almennum reglum um bann við ríkisstyrkjum sem íslensk stjórnvöld geta nýtt sér ef þau kjósa svo. Í reglugerðinni er kveðið á um réttindi sem stjórnvöld geta byggt á hvað varðar almenna tilkynningarskyldu til ESA. Gerðin hefur verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2017 frá 27. júní 2014 og er því er unnt að beita henni hér á landi óháð samþykki ESA.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að tryggð verði fjárveiting til að standa undir mati og greiningu samkvæmt 12. gr. frumvarpsins hvort sem er til handa Byggðastofnun eða nefnd samkvæmt 11. gr. frumvarpsins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fylgja skjali nefndarinnar.

Undir þetta rita hv. þingmenn Haraldur Benediktsson, framsögumaður, Jón Gunnarsson formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, með fyrirvara, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Með þessu fylgir minnisblað Byggðastofnunar.