144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

sala fasteigna og skipa.

208. mál
[16:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Eins og fram kom í ágætri ræðu framsögumanns þá rita ég undir nefndarálit þetta með fyrirvara. Ég ætla að gera stuttlega grein fyrir honum.

Hér er á ferðinni gamall kunningi. Við sem erum búin að vera hér nokkur undanfarin ár þekkjum þetta frumvarp. Það hefur verið margendurflutt og strandað hér, ekki átt auðvelda leið í gegnum þingið. Það byggir á nefndarstarfi og skoðun á þessum lagabálki allt aftur til áranna 2006, 2007 og 2008, ef ég man rétt. Síðan hefur það verið margflutt á þingi. Nú hefur loksins að mínu mati tekist nokkuð vel til við að vinna þetta mál. Nefndin hefur lagt í það talsverða vinnu og ekki síst talsmaður nefndarinnar sem hafði framsögu fyrir málinu. Það er því þannig komið að það væri synd ef menn næðu ekki að klára það í þessari umferð og þyrftu að glíma við það enn á næsta þingi eða komandi þingum.

Ég tel að öll sú vinna sem nefndin vann og þær breytingartillögur sem hér eru fluttar bæti máli verulega. Það er búið að glíma við alla helstu vankantana og þau umkvörtunarefni sem algengust eru frá aðilum sem eru kunnugir þessum markaði og viðskiptum og hafa komið fyrir nefndina. Breytingartillögurnar bera það með sér að reynt hefur verið að taka á slíkum málum eins og nokkur kostur er.

Það sem snýr aðallega að mínum fyrirvara er í fyrsta lagi spurningin um afnám skylduaðilar að Félagi fasteignasala. Eins og framsögumaður fór yfir þá er það í raun útgangspunktur þessa frumvarps að skylduaðildin falli niður, að eftirliti verði hagað með tilteknum hætti. Vissulega er sú leið fær og margir mundu telja hana eðlileg viðbrögð við áliti umboðsmanns Alþingis og dómi Hæstaréttar sem komst að endingu að þeirri niðurstöðu að skylduaðild að Félagi fasteignasala, eins og um hana er nú búið í lögum, standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar. En vel að merkja þá kemur fram þegar skoðað er bæði álit umboðsmanns og þessi dómur Hæstaréttar að hann er ekki einhver allsherjardómur um það að skylduaðild að félagi af þessu tagi geti ekki gengið upp gagnvart stjórnarskránni, heldur er alveg ljóst að það eru gerðar mjög ríkar kröfur til þess hvernig sú löggjöf sem um slíka skylduaðild fjallar er úr garði gerð, hvernig réttlætingin fyrir skylduaðildinni er rökstudd og að hún sé málefnaleg, að færð séu fram fullnægjandi rök fyrir þeim ríku almannahagsmunum sem séu nauðsynlegir til þess að réttlæta skylduaðild.

Við skoðuðum að sjálfsögðu skylduaðild að Lögmannafélagi Íslands og öðrum tilteknum félagsskap lögmanna í landinu sem byggja á þannig fyrirkomulagi. Hún hefur verið talin standast, a.m.k. hefur henni ekki verið hnekkt enn fyrir dómi, enda er þar mjög rækilega og skýrt um það búið hvaða tilgangi sú skylduaðild þjónar.

Ég er þeirrar skoðunar og hélt því sjónarmiði til haga í nefndinni að sú leið kæmi til greina að leiðrétta þau mistök sem í raun og veru voru gerð með lagasetningunni á Alþingi 2004. Það kom í ljós að það voru í raun og veru breytingar sem urðu í meðförum Alþingis sem felldu væntanlega málið en ekki frumvarpið sjálft eins og það kom upphaflega fram. Alþingi breytti sem sagt málinu í þá átt að það veikti frekar en styrkti röksemdir fyrir því að skylduaðild væri besta fyrirkomulagið til að ná fram þeim markmiðum sem að var stefnt og er auðvitað áfram stefnt að með þessum lögum, að umgjörð um þessi mikilvægu viðskipti sé vönduð þar sem oft séu í höndum fasteignasala stærstu fjárfestingar sem venjuleg heimili í landinu gera á lífsleiðinni, þ.e. fasteignakaup. Þá þarf að sjálfsögðu að vera ljóst að á grunni þeirrar skylduaðildar sé ríkra almannahagsmuna gætt og í gegnum hana sé eftirliti eða öðrum slíkum hlutum þannig háttað að vel sé fyrir því séð og að það fyrirkomulag standist af þeim sökum.

Mér er ljóst að ég er í minni hluta með þetta sjónarmið mitt. Ég ætla því ekki að láta það valda því í sjálfu sér að ég standi ekki að málinu enda flyt ég breytingartillögurnar ásamt með öðrum félögum mínum í efnahags- og viðskiptanefnd og mun greiða málinu atkvæði, en þetta er ein meginástæða þess að ég hef þennan fyrirvara á. Mér finnst eðlilegt og rétt að hann komi hér fram. Hann er í samræmi við það sem Félag fasteignasala hefði kosið að yrði niðurstaðan í málinu þó að ég leyfi mér að ætla að þeir séu sæmilega sáttir við frumvarpið eins og það er nú orðið.

Nokkur önnur atriði sem má nefna er það sem tekið er nokkuð vel á, að mínu mati, í frumvarpinu að hluta til en þó enn betur með breytingartillögum efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e. því sem snýr að verktöku eða þeim störfum við fasteignaumsýslu og fasteignasölu sem aðrir en hinn löggilti fasteignasali annast. Það er meðal annars gert með breytingartillögum við 8. gr. þar sem skýrt er kveðið á um að fasteignasala beri sjálfum að sinna öllum þeim verkefnum sem löggilding hans nær til og fjallað er um í viðkomandi kafla laganna og jafnframt tekið fram hvaða verkefni honum sé aldrei heimilt að fela öðrum aðila, þ.e. öll meginskjalagerð, samningar um sölu, söluyfirlit, tilboðsgerð, ráðgjöf o.fl. Síðan er þarna ákvæði um að þeir sem við þetta starfa, þó að þeir séu ekki hinir löggiltu aðilar, skuli hafa óflekkað mannorð og hafi ekki hlotið dóma fyrir brot á ákvæðum til tiltekinna laga.

Loks var talsvert rætt um siðareglur og þá breytingu sem leiðir af afnámi skylduaðildar að Félagi fasteignasala. Siðareglur Félags fasteignasala yrðu þá ekki lengur í þeim skilningi bindandi með sama hætti fyrir alla félagsmenn og ekki þá sem veldu að standa utan félagsins. Niðurstaða nefndarinnar varð engu að síður sú að það væri mikilvægt að tryggja að fasteignasalar skyldu leysa störf sín af hendi í hvívetna svo sem góðar viðskiptavenjur og siðareglur bjóða. Ég lít svo á að þar með sé ljóst að fasteignasölum beri að starfa samkvæmt siðareglum og væntanlega verða það siðareglur félagsins almennt, en út af fyrir sig getur niðurstaðan orðið að í einhverjum tilvikum starfi menn samkvæmt siðareglum sem þeir setja sér sjálfir eða verða til með einhverjum öðrum hætti.

Ég læt duga að nefna þessi atriði sem það helsta sem ég tel að skipti máli í þessum efnum og endurtek að ég held að sé mjög ákjósanlegt að Alþingi ljúki nú umfjöllun um þetta mál. Við erum satt best að segja að verða svolítið leið á því sum hver. Ég held að það sé búið að vinna þetta mál eins vel og kostur er og mikilvægt að það fái hér fullnaðarafgreiðslu.