144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

loftslagsmál.

424. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fjölmarga umsagnaraðila sem ég ætla ekki að lesa hér upp en vísa í nefndarálitið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um loftslagsmál, nr. 70/2012, með síðari breytingum, en allar má rekja til alþjóðlegs samstarfs Íslands í gegnum EES-samninginn. Í fyrsta lagi er lögð til innleiðing á tilskipunum um geymslu koldíoxíðs í jarðlögum og opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum. Í öðru lagi er lögð til breyting á viðmiðunarfjárhæðum losunargjalds samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna, sem tekur til aðila sem eru undanskildir gildissviði viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Breyta þarf fjárhæð gjaldsins ár hvert svo að það fylgi forsendum fjárlaga. Í þriðja lagi er lagt til að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lögin til fullnaðarinnleiðingar á reglugerð (ESB) nr. 421/2014 sem felur í sér breytt gildissvið viðskiptakerfis með losunarheimildir sem tekur til flugrekenda. Í því felst að þeim flugrekendum sem skila skýrslu og gera upp losunarheimildir hér á landi fækkar umtalsvert. Breytingin er tímabundin og gildir til 31. desember 2016.

Ég ætla að fjalla meira um þessa liði í eins stuttu máli og mér er unnt en nefndarálitið er allítarlegt.

Í a-lið 3. gr. frumvarpsins er lagt til að innleidd verði tilskipun 2009/31/EB um förgun og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum. Mat umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er að heppilegast sé að svo stöddu að innleiða tilskipunina þannig að almennt bann verði lagt við niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs í jarðlögum hér á landi en með heimild fyrir rannsóknar- og þróunarverkefni þar sem ætlunin er að geyma minna en 100 kílótonn af koldíoxíði. Samkvæmt b-lið 5. gr. frumvarpsins skal endurskoða ákvæðið ekki síðar en árið 2020. Aðferðin við innleiðingu ákvæðisins skiptir miklu máli varðandi tilraunaverkefni sem Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að, CarbFix-verkefnið, þar sem koldíoxíði er blandað við vatn og því dælt niður í jarðlög á 500 metra dýpi í formi kolsýru þar sem það binst. Mælingar hafa sýnt að innan árs frá niðurdælingu hafa um 80–90% af koldíoxíði bundist í basöltum og kristallast í jarðlögum og geymist þannig. Orkuveitan hefur einnig unnið að öðru verkefni, SulFix-verkefninu, þar sem brennisteinsvetni er dælt niður á svipaðan hátt og það binst síðan í jarðlögum. Líkt og rakið er í athugasemdum við frumvarpið virðist tilskipunin miða við jarðfræðilegar aðstæður sem eru töluvert frábrugðnar íslenskum aðstæðum.

Fram komu þau sjónarmið að CarbFix-verkefnið félli utan gildissviðs tilskipunar 2009/31/EB og þar með frumvarpsins þar sem sú aðferð sem notuð er við niðurdælingu koldíoxíðs í verkefninu sé með öðrum hætti en tilskipunin gerir ráð fyrir, þ.e. þegar koldíoxíði er dælt niður. CarbFix-verkefnið er hins vegar tilraunaverkefni og fellur því undir undanþáguákvæði 2. mgr. a-liðar 3. gr. frumvarpsins. Þá er það einnig ljóst að mati nefndarinnar að skilgreining 1. gr. frumvarpsins felur í sér að hún tekur til niðurdælingar og geymslu, þ.e. niðurdæling ein og sér án geymslu fellur ekki þar undir.

Fyrir nefndinni kom fram að verkefnið hefði gengið mjög vel eins og fram kemur hér að framan og því væri líklegt að búið yrði að dæla meira en 100 kílótonnum af koldíoxíði fyrir árið 2020. Nefndin fékk þær upplýsingar að umhverfis- og auðlindaráðherra hefði skipað nefnd sem hefði það hlutverk að fylgjast með framþróun og breytingum á reglum ESB um niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs og er nefndinni ætlað að skila ráðherra frumvarpi um mitt ár 2016 sem miði að því að heimila niðurdælingu og geymslu koldíoxíðs miðað við íslenskar aðstæður. Í nefndinni sitja fulltrúi ráðuneytisins, Umhverfisstofnunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Endurskoðun á tilskipun 2009/31/EB er þegar hafin innan ESB og mikilvægt að í þeirri vinnu verði íslenskum sjónarmiðum komið á framfæri sem leiði til þess að tekið verði tillit til jarðfræðilegra aðstæðna hér á landi þannig að verkefnum á þessu sviði hér fylgi ekki allar þær íþyngjandi kröfur sem hugsanlega er ekki þörf á hérlendis. Að mati nefndarinnar er mikilvægt að niðurstaða fáist sem fyrst svo komast megi hjá neikvæðum áhrifum á fyrrgreind verkefni og hugsanlega niðurdælingu koldíoxíðs í kjölfar þeirra.

Varðandi opinber innkaup á vistvænum og orkunýtnum ökutækjum kemur fram í b-lið 3. gr. frumvarpsins að innleidd verði tilskipun 2009/33/EB um að stuðla að notkun á hreinum og orkunýtnum ökutækjum. Ákvæðið tekur til opinberra aðila eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. laga um opinber innkaup, nr. 84/2007. Lagt er til að efnisreglur verði lögfestar í lögum um loftslagsmál en almennt eru efnisreglur um opinber innkaup lögfestar í þeim lögum. Fyrir nefndinni kom fram að þetta væri niðurstaða þeirra þriggja ráðuneyta sem efni tilskipunar 2009/33/EB snertir. Að mati nefndarinnar fer almennt betur á því að efnisreglur sem varða opinber innkaup séu í einum lögum þannig að þeir aðilar sem lögin taka til viti hvert þeir þurfi að leita til að kynna sér þær reglur sem gilda um innkaup þeirra. Fyrir nefndinni kom þó einnig fram að hafin er endurskoðun á lögum um opinber innkaup í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og bendir meiri hlutinn á að í þeirri endurskoðun þurfi meðal annars að taka til skoðunar hvort rétt sé að reglurnar muni til frambúðar standa í lögum um loftslagsmál eða lögum um opinber innkaup. Meiri hlutinn mun bíða niðurstöðu þeirrar endurskoðunar og leggur því að svo stöddu til að ákvæðið verði í lögum um loftslagsmál.

Fyrir nefndinni kom fram að óljóst væri hvort b-liður 3. gr. frumvarpsins tæki til Orkuveitu Reykjavíkur þar sem starfsemi félagsins væri að mestu hægt að jafna til starfsemi einkaaðila, samanber 1. málslið 2. mgr. 3. gr. laga um opinber innkaup. Meiri hlutinn bendir á að Orkuveitan fellur undir reglugerð um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, nr. 755/2007. Reglugerðin er sett með stoð í 3. mgr. 7. gr. laga um opinber innkaup en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar gilda önnur ákvæði laganna en ákvæði XIV. og XV. kafla ekki um aðila sem falla undir reglugerð nr. 755/2007. Meiri hlutinn bendir þó á mikilvægi þess að opinberir aðilar og fyrirtæki í eigu hins opinbera hagi sínum innkaupum með vistvæn sjónarmið að leiðarljósi.

Varðandi seinna skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar leggur meiri hlutinn til þá breytingu á frumvarpinu að bæta við lögin ákvæði til bráðabirgða sem lögfestir 4. gr. samnings milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með nefndarálitinu.

Ísland, Evrópusambandið, aðildarríki þess og Króatía gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í lok árs 2012 við innleiðingu Doha-breytingarinnar, um fyrirætlanir ríkjanna til að uppfylla skuldbindingar sameiginlega á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem er frá 2013–2020. Í yfirlýsingunni er nánar kveðið á um að ríkin muni uppfylla skuldbindingarnar á öðru tímabili Kyoto-bókunarinnar í samræmi við ákvæði 1. mgr. 4. gr. bókunarinnar sem heimili aðilum að bókuninni að uppfylla skuldbindingar samkvæmt 3. gr. hennar sameiginlega. Íslensk stjórnvöld hófu formlegar samningaviðræður við Evrópusambandið í mars 2014 varðandi hlut Íslands í sameiginlegum efndum ríkjanna á seinna skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar. Þeim samningaviðræðum lauk í maí 2014 með áritun samningsaðila á samning á milli Íslands annars vegar og Evrópusambandsins og aðildarríkja þess hins vegar um þátttöku Íslands í sameiginlegum efndum á skuldbindingum Íslands, Evrópusambandsins og aðildarríkja þess og á öðru skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Gert er ráð fyrir að samningurinn verði undirritaður á næstunni.

Við nánari rýni á drögum samningsins, sem lágu fyrir um miðjan janúar 2015, var það metið svo af stjórnvöldum að rétt væri að veita 4. gr. samningsins lagagildi hér á landi og leggur meiri hlutinn það til að ósk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eru þær ESB-gerðir sem vísað er til í 1. viðauka við samninginn bindandi fyrir Ísland, en þær varða skuldbindingar í sambandi við Kyoto-bókunina og er einkum um að ræða tæknilegar reglur um loftslagsbókhald og skilafresti, líkt og fjallað er um í samningnum sjálfum. Sérstök nefnd um sameiginlegar efndir samkvæmt 6. gr. samningsins getur með ákvörðunum sínum bætt ESB-gerðum við fyrrgreindan viðauka. Nefndin, sem skal skipuð fulltrúum samningsaðilanna, þ.e. aðildarríkja ESB og Íslands, skal samkvæmt 2. mgr. 6. gr. taka allar ákvarðanir með samhljóða samþykki. Í því felst að engar gerðir öðlast gildi fyrir Ísland nema fulltrúi Íslands samþykki þær. Tekið er fram í 4. mgr. 4. gr. samningsins að ef breytingar á 1. viðauka við samninginn kalla á breytingar á löggjöf Íslands skuli við gildistöku slíkra breytinga hafa hliðsjón af þeim tíma sem Ísland þarf til að samþykkja breytingarnar og þörfinni á að tryggja samræmi við kröfur Kyoto-bókunarinnar og ákvarðanir.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem gerð hefur verið grein fyrir og lögð er til í sérstöku skjali.

Undir álit þetta skrifa Höskuldur Þórhallsson, formaður og framsögumaður, Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, Elín Hirst og Vilhjálmur Árnason, en Jón Þór Ólafsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.