144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:09]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla mér ekki að lengja mjög umræðu um það frumvarp sem hér um ræðir, sem er breyting á ýmsum lögum vegna samkomulags milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms. En við erum hér enn og aftur í bútasaumi til að geta uppfyllt einhverjar skyldur. Þó svo að tónlistarskólarnir séu verkefni sveitarfélaga þá grípur ríkið inn í með einum eða öðrum hætti til þess að hægt sé að stuðla að framhaldsnámi í tónlistarfræðslu og tónlist almennt.

Ég legg því til, virðulegi forseti, og segi enn og aftur að kominn er tími til að farið verði yfir lög um tónlistarskóla og stefnu í þeim efnum, hvort tónlistarnám almennt eigi að vera sérverkefni sveitarfélaga eða hvort skipta eigi þessu námi, eins og öðru námi sem nemendur stunda, í grunnnám og síðan framhaldsnám og það sé þá verkefni ríkisins að taka við framhaldsnáminu. En þá þarf jafnframt, eins og oft hefur komið fram í umræðunni, að draga annað listnám með inn og þá undir grunnskólann og verkefni sveitarfélaga. En það hlýtur að vera tími, virðulegur forseti, til að leggjast yfir lög um tónlistarskóla og verkefnið sem því fylgir. Þessi bútasaumur æ ofan í æ er okkur ekki til sóma.