144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

loftslagsmál.

424. mál
[17:55]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég geri hér grein fyrir breytingartillögu minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar, en þar leggjum við til eina breytingu sem er að færa tekjuákvæði loftslagssjóðs til þess horfs sem var fyrir breytingu sem gerð var á frumvarpi til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2015. Samkvæmt þeirri breytingu sem hér er lögð til fær loftslagssjóður aftur tekjustofn sinn, sem er helmingur tekna íslenska ríkisins af sölu losunarheimilda á uppboði, en hlutverk sjóðsins er að styðja við verkefni sem stuðlað geti að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og er til að styðja við metnaðarfull markmið Íslands í því að draga úr losun. Til að við getum verið á pari við löndin í kringum okkur þurfum við að styðja þekkingu, vísindi og þróun í áttina að loftslagsvænna samfélagi og grænan vöxt. Það er það sem meiri hlutinn greiðir atkvæði gegn hér.