144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni þótt í stuttan tíma sé þá skýrslu sem fjármála- og efnahagsráðherra skilaði seint og um síðir um lækkun höfuðstóls verðtryggðra lána. Hann svarar með því að nokkru leyti en alls ekki fullnægjandi hætti ítarlegri skriflegri fyrirspurn sem lögð var fyrir hann fyrir áramót. Þar kemur meðal annars fram, af því að hér talaði síðasti ræðumaður um að loksins hefði eitthvað verið gert í að lækka skuldir heimila, að fyrri úrræði og dómar um ólögmæti gjaldeyrislána lækkuðu skuldir heimilanna samtals um 216 milljarða kr. á árunum frá 2009 til 2013, 2014, þar af beinar ráðstafanir ríkisins um 66 milljarða.

Nú höfum við séð glitta í mat, ófullnægjandi mat að vísu, á því hvernig þessi skuldaniðurfærsla kemur út. Þar birtist okkur það sem auðvitað var varað við, að í fyrsta lagi er þetta veruleg færsla fjármuna milli kynslóða. Að uppistöðu til fara þessir fjármunir til þeirra sem eru 50 ára og eldri og þeir sem eru yngri en 35 ára fá aðeins 4,4 milljarða, þ.e. unga fólkið sem keypti íbúðir á þessum óhagstæðu árum fær minnst. Í öðru lagi og eðlilega svo sem fer langmest af skuldaniðurfærslunni til höfuðborgarsvæðisins. 20 milljarðar fara til hinna tekjuhæstu, þeirra tveggja tekjutíunda sem eru með 1,2 milljónir á mánuði eða meira, þeir fá 20 milljarða af þessum 70. Það bítur auðvitað höfuðið af skömminni sem strax var bent á hér í umræðu um málið að 1.250 einstaklingar sem greiddu eða heimili sem greiddu auðlegðarskatt, sem eiga hreinar eignir upp á 100 millj. kr. eða meira, fá 1,5 milljarða í skuldalækkun. Þetta er sama fólkið og fær felldan niður á einu bretti og með öllu auðlegðarskattinn á þessu sama ári.

Herra forseti. Ég held að þetta muni lengi í minnum haft að svona sé opinberum fjármunum ráðstafað, að sérstök gjöf sé send (Forseti hringir.) 1.250 ríkustu fjölskyldunum á Íslandi.