144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:07]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni þróun kjara þeirra sem þurfa að reiða sig á bætur almannatrygginga, eldri borgara og öryrkja. Fyrir nýgerða kjarasamninga voru bætur til einstaklinga sem ekki eru í sambúð nokkurn veginn jafnar lágmarkslaunum þótt hinir hafi haft minna. Í kjarasamningunum er gert ráð fyrir umtalsverðum hækkunum á lágmarkslaunum, eða um 7,6% á ári að meðaltali næstu þrjú árin. Verðbólguspáin fer ekki upp fyrir 2,5% á sama tíma, þannig að kaupmáttur lægstu launa ætti því að aukast um rúm 5% á ári.

Ríkisfjármálaáætlunin, þar sem lagðar eru til forsendur fyrir fjárlög áranna 2016–2019, er á dagskrá þingfundar í dag. Í áætluninni stendur skýrum stöfum að lagt sé til að Alþingi samþykki að bætur almannatrygginga hækki ekki um nema 1% á ári næstu þrjú árin umfram verðbólgu. Við í minni hluta fjárlaganefndar höfum bent á þetta, nú síðast á fundi nefndarinnar með hæstv. fjárlaga- og efnahagsráðherra, og lögðum til að þingsályktunartillagan um ríkisfjármálaáætlun yrði dregin til baka. Það vildi hvorki meiri hluti nefndarinnar né hæstv. ráðherra og því stendur óhaggað að leggja það til að Alþingi samþykki að kjör þeirra sem allra minnst hafa á milli handanna dragist langt aftur fyrir lágmarkslaun og að þeim verði haldið í fátæktargildrunni.

Ég hef heyrt tvo hv. þingmenn Framsóknarflokksins tala um að mikilvægt sé að vinna gegn ójöfnuði í samfélaginu og jafnvel heyrt þá tala vel um þann árangur sem ríkisstjórn jafnaðarmanna náði í þeim efnum, annar þeirra er hv. þm. Willum Þór Þórsson. Ef ríkisfjármálaáætlunin verður samþykkt með óbreyttum forsendum er verið að auka ójöfnuð og misskiptingu.

Ég vil því spyrja hv. þm. Willum Þór Þórsson hvort hann sé sammála þeirri forsendu ríkisfjármálaáætlunar að kaupmáttur bóta almannatrygginga hækki um 1% á ári nú þegar er ljóst að kaupmáttur lægstu launa muni á sama tíma hækka um 5% á ári.