144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:10]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrirspurnina sem snýr að þeim þætti ríkisfjármálaáætlunar sem er um bætur almannatrygginga þar sem sú forsenda er gefin að á árabilinu 2016–2019, eins og ríkisfjármálaáætlun nær til, muni kaupmáttur bóta almannatrygginga hækka um 1% á ári á sama tíma og kaupmáttur lægstu launa verði 5% á ári.

Hæstv. fjármálaráðherra leggur fram þessa áætlun í samræmi við þingsköp nú í fyrsta sinn og hún er því lögð fram fyrir gerð þeirra kjarasamninga sem hafa átt sér stað á almenna markaðnum sem hv. þingmaður vitnar til og áætlun um losun hafta. Nú kemur það fram í ríkisfjármálaáætlun, hún er býsna skýr með það, að hún er mikilli óvissu háð, bæði er snýr að kjarasamningum og svo áætlun um losun hafta sem nú hefur verið birt samhliða þeim tveimur frumvörpum sem við erum að vinna að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Ef ég horfi á þetta út frá ríkisfjármálaáætluninni sem slíkri, sem við ræðum hér síðar í dag, af því að við hv. þingmaður deilum sömu skoðun um kjör eldri borgara og öryrkja, en varðandi ríkisfjármálaáætlunina er það svo að miðað við breyttar forsendur er hæstv. félagsmálaráðherra væntanlega að vinna í því að leggja inn breytingar og vinnu á breyttum forsendum sem við sjáum birtast í fjárlögum í haust, sem mun síðar væntanlega taka mið af því þegar við sjáum nýja ríkisfjármálaáætlun að ári liðnu. Þá sjáum við þessa breytingu. Mér finnst það bara eðlileg vinna á breyttum forsendum, þessi ríkisfjármálaáætlun stendur, hún er varfærin og tekið er skýrt fram (Forseti hringir.) að það eru vissulega stórir óvissuþættir.