144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

störf þingsins.

[10:26]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar í enn eitt skiptið að koma hérna upp og tala um störf þingsins undir liðnum um störf þingsins. Mér finnst í rauninni eins og allir þvert á flokka séu orðnir sammála um að það fyrirkomulag sem við viðhöfum hér gangi ekki. Og mér sýnist líka að fólk sé búið að komast að niðurstöðu sem allir geta verið sáttir við sem snýr að því að ræðutími sé takmarkaður eins og er reyndar gert í flestum þjóðþingum. Það er ekki þannig að þingmenn í löndunum sem við berum okkur saman við geti komið upp í ræðustól og talað eins og þá lystir og beðið jafnvel um orðið inni í þingsal. Stundum þarf að biðja um orðið fyrir fram. Þetta er gert til að geta skipulagt umræðuna þannig að við vitum að á þriðjudaginn klukkan 9 verður þetta mál rætt og 15. október verðum við að ræða þetta mál. Það mundi auka framleiðni og bæta vinnuanda, held ég, ef það væri meira skipulag á þinginu. En til þess að þingmenn í minni hlutanum séu tilbúnir að afsala sér málþófsvopninu eða þeim rétti að geta talað og stoppað mál þarf eitthvað annað að koma á móti.

Ég hef ekki upplifað það hér á þessum tveimur árum að stjórnvöld, stjórnarherrarnir, nálgist minni hlutann með einhvern sáttahug eða reyni að semja um mál fyrir fram, það er gert á lokametrunum. Og þess vegna gæti hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslu, að einhver hluti þingmanna geti vísað umdeildum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu, verið hinn liðurinn, þetta væru tvö samhangandi mál. Ég held að við ættum ekkert að vera að bíða með þetta heldur hópa okkur saman, leggja fram mál í haust þar sem við kippum þessu í liðinn, vegna þess að það er eiginlega ekki bjóðandi hvernig vinnubrögðin eru á Alþingi.